133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

þjónusta Símans á sunnanverðum Vestfjörðum.

369. mál
[11:44]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú kom kennarinn upp í hv. þingmanni þegar henni blöskrar kæruleysið er hún lítur yfir nemendahópinn hér. Ég svaraði því alveg skýrt og skorinort áðan að það er á ábyrgð Ríkisútvarpsins og þeirra þjónustuaðila sem Ríkisútvarpið semur við að sjá til þess að útvarp náist. Samgönguráðherra kemur þar hvergi að. Það er alger misskilningur ef hv. þingmenn halda að samgönguráðherra sé með vinnuflokka í því að gera við bilaða senda á vegum útvarpsins. Ég bara skil ekki þessa umræðu. Þetta er alger grundvallarmisskilningur. Hins vegar er það þekkt að ... (Gripið fram í: ... sameiginlegir hagsmunir, er það ekki?) Jú, jú, sameiginlegir hagsmunir felast í því og það eru hagsmunir okkar að sjálfsögðu allra íbúa að þetta sé í góðu lagi. En stundum eru veður þannig að jafnvel sendar fara niður og þá þarf að tryggja það að sjálfsögðu að Ríkisútvarpið eða aðrar útvarpsstöðvar eigi þess kost að láta gera við

Hér blandast inn í með sérkennilegum hætti samningur um ferjusiglingar á Breiðafirði sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi. (Gripið fram í.) Þær skipta svo sannarlega miklu máli fyrir samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er samningur við rekstraraðila þar á grundvelli gildandi vegalaga. Hér fyrir þinginu liggur nú frumvarp til vegalaga sem gerir þá breytingu að áfram verður hægt af hálfu ríkisins, þrátt fyrir uppbyggingu vegar um Barðaströndina, þ.e. ef frumvarpið verður að lögum þá verður áfram hægt að semja um siglingar yfir Breiðafjörðinn og ég vona að hv. þingmaður styðji þá breytingu svo tryggja megi að samið verði á grundvelli útboðs um áframhaldandi siglingar.