133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

greinargerð um jafnréttisáætlun.

422. mál
[11:50]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn er varðar greinargerð um jafnréttisáætlun og ég þakka henni fyrir þá spurningu. Ég get með ánægju upplýst að nú liggja fyrir í ráðuneytinu drög að ítarlegri skýrslu um stöðu og þróun í jafnréttismálum frá árinu 2004. Vinna við frágang skýrslunnar er á lokastigi en fjölmargir aðilar hafa lagt hönd á plóginn við undirbúning hennar. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég er þegar með drög að þeirri skýrslu í mínum höndum. Samhliða því að greinargerðin verður lögð fram verður lögð fram endurskoðuð þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.

Ég vil jafnframt geta þess að nefnd er að störfum sem vinnur að endurskoðun laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka á Alþingi auk fulltrúa frá Jafnréttisstofu en formaður nefndarinnar er Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari. Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum í febrúar næstkomandi og er því ljóst að jafnréttismálin verða mjög fyrirferðarmikil í starfi ráðuneytisins á næstu vikum og væntanlega á vettvangi Alþingis á vorþingi og að sjálfsögðu er það vel.

Hvað greinargerðina varðar sem hv. þingmaður spyr um stefni ég að því að leggja hana fram á Alþingi á allra næstu vikum og þá mun gefast góður tími til að ræða þennan mikilvæga málaflokk á Alþingi.