133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

greinargerð um jafnréttisáætlun.

422. mál
[11:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott til þess að vita að skýrslan eða greinargerð skuli vera á næsta leiti um stöðu mála á þessu miðju tímabili sem er reyndar komið dálítið fram yfir þann tíma sem gert var ráð fyrir. Það skiptir verulegu máli að stjórnarandstaðan geti á þessum vettvangi sýnt ráðherranum þetta aðhald sem ég tel okkur vera að gera og mig í þessu tilfelli varðandi jafnréttisáætlunina. Maður hefur oft á tilfinningunni að þegar við setjum fram fyrirspurnir af þessu tagi séum við aðeins að vekja ráðherrana og þeir fari þá að spyrjast fyrir um viðkomandi málefni í sínum ranni og það hafi kannski í þessu tilfelli orsakað það að hæstv. ráðherra getur nú með góðri samvisku rekið á eftir verkinu og tryggt að það fari að líta dagsins ljós.

Hæstv. ráðherra getur um það að endurskoðun jafnréttislaga standi yfir. Mér er kunnugt um það því að við vinstri græn eigum fulltrúa í þeirri nefnd og höfum fengið að fylgjast með í gegnum hana. Ég verð að viðurkenna að það er metnaðarfullt verkefni og ég vona náttúrlega eins og hæstv. ráðherra að þar takist vel til. Hitt verðum við svo að halda áfram að standa vörð um, að jafnréttisáætlunin sem samþykkt er á Alþingi Íslendinga sé með þeim hætti að henni sé framfylgt. Auðvitað stendur vilji allra til þess að þegar hæstv. ráðherra lýsir inn í það hvernig ráðherrarnir hafa staðið sig hingað til frá vorinu 2004, þá sjái menn að einhver árangur hafi orðið. Ég í öllu falli vona sannarlega og í sjálfu sér krefst þess að ríkisstjórnin sýni meiri árangur í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna innan stjórnkerfisins og innan þess geira sem ríkisstjórnin hefur yfir að ráða heldur en henni tókst árið 2004 varðandi fjögur árin þar á undan. Ég held að það skipti verulegu máli að hæstv. ráðherra brýni sitt fólk til dáða og jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna fái mannafl til að fylgja verkum sínum vel eftir.