133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup og sala heyrnartækja.

286. mál
[11:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að nýta kosti breyttra rekstrarforma og þjónustusamninga um einstaka þætti þar sem það á við til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu án þess að dregið verði úr rétti eða aðgengi að þjónustunni. Ríkisstofnunin Heyrnar- og talmeinastöðin hefur um árabil þjónað þeim sem búa við heyrnar- og talmein. Rekstur hennar hefur verið brösóttur og sætti þjónusta hennar mikilli gagnrýni fyrir nokkrum árum en á því hefur verið tekið.

Á síðustu árum hefur eftirspurn eftir heyrnartækjum og þjónustu vegna þeirra aukist mikið. Það skýrist m.a. af því að þjóðin er að eldast, af auknu algengi heyrnarskerðingar, betri tækni, auknum kröfum um lífsgæði og auknum skilningi á þessum vanda fólks.

Heyrnar- og talmeinastöðin var lengi eina stofnunin sem þjónaði umræddum hópi. Á síðustu árum hafa einkaaðilar svarað aukinni þörf fyrir þjónustu við heyrnarskerta og aukið val þeirra. Þetta eru fyrirtæki eins og Heyrnartækni og nú síðast Heyrnarstöðin sem tók til starfa nýverið. Fyrirtækið Heyrnartækni hefur frá stofnun þess árið 2001 lagt höfuðáherslu á að þjóna íbúum landsbyggðarinnar og veitir þjónustu við heyrnarskerta á 17 stöðum um allt land en Heyrnar- og talmeinastöðin veitir einkum þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Það er almennt álit manna að þjónusta þessa fyrirtækis hafi verið með ágætum og átt sinn þátt í fækkun biðlista eftir heyrnartækjum sem var viðvarandi og bagaleg árum saman. Viðskiptavinir fyrirtækisins hafa hins vegar þurft að sæta miklum takmörkunum á endurgreiðslu vegna þjónustu þess og ekki notið jafnstöðu við þá sem hafa leitað til ríkisfyrirtækisins Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Þetta hefur ekki síst bitnað á íbúum landsbyggðarinnar. Þeir hafa staðið frammi fyrir vali að greiða fyrir heyrnartæki frá fyrirtækinu fullu verði eða farið til Reykjavíkur og fengið heyrnartæki frá Heyrnar- og talmeinastöðinni og notið fullrar niðurgreiðslu samkvæmt reglum þar um. Í þessu felst mikil mismunun.

Frá áramótum hefur þessi mismunun birst í því að í stað takmarkana á fjölda þeirra sem njóta endurgreiðslu hefur þjónusta fyrirtækisins samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins verið takmörkuð og skert frá því sem áður var án þess að málefnaleg rök liggi fyrir slíkri breytingu.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra spurninga um hvernig hún hafi hugsað sér að jafna aðstöðu sjúklinga í þessum efnum milli íbúa þéttbýlis og strjálbýlis, hvernig ráðherra hefur tryggt óhlutdrægni og jafna rekstrarstöðu þeirra sem starfa á þessum markaði og hvernig eftirliti er háttað með slíkri starfsemi.