133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup og sala heyrnartækja.

286. mál
[11:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrstu spurninguna er því til að svara að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tryggir eins og þess er kostur að landsmenn fái þá heilbrigðisþjónustu sem þeim er nauðsynleg hvort heldur það er í heimabyggð eða utan hennar. Af skiljanlegum ástæðum er aðgengi landsbyggðarfólks að heilbrigðisþjónustu ekki nákvæmlega það sama og þeirra sem búa í Reykjavík. Nægir þar að vísa til sjúkdóma sem krefjast aðgerða sem gerðar eru á einum eða tveimur stöðum á landinu. Það gildir einnig eftir atvikum um þjónustu við einstaklinga með heyrnarmein.

Ýmis rök eru fyrir því að ekki er alltaf mögulegt að veita heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Undir slíkum kringumstæðum gildir almennt að fái sjúklingur ekki heilbrigðisþjónustu sem honum er nauðsynleg að mati læknis í heimahéraði tekur Tryggingastofnun ríkisins þátt í kostnaði hans við að sækja þjónustuna, samanber reglugerð nr. 271/2004, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands. Sú reglugerð á eftir atvikum við um einstaklinga með heyrnarmein sem þurfa á heyrnartækjum að halda.

Við undirbúning breytinga á fyrirkomulagi um sölu heyrnartækja sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn var m.a. óskað eftir áliti landlæknisembættisins á faglegum kröfum til þeirra sem selja heyrnartæki og veita tengda þjónustu. Í svari embættisins, dagsett 1. desember 2006, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir því sem undirritaður veit best er ekki til viðurkenndur tækjabúnaður til heyrnarmælinga utan Reykjavíkur og Akureyrar en ekki er viðunandi að bjóða landsbyggðarfólki upp á lakari þjónustu. Niðurstöðu úr hverri mælingu þarf að meta með tilliti til þess hvort sérhæfðar mælingar séu nauðsynlegar. Mikilvægt er að sá sem mælir hafi þekkingu til að meta það og hafi að auki aðgang að lækni með sérþekkingu og geti rætt við hann hverju sinni um útkomu mælinganna.“

Til viðbótar má geta þess að samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöðinni hefur starfsfólk stöðvarinnar farið að jafnaði 12–14 ferðir á ári síðustu þrjú árin til Akureyrar til að sinna heyrnarskertum, bæði fullorðnum og börnum. Þjónustan sem þar er veitt er heyrnarmæling, afgreiðsla á nýjum heyrnartækjum, endurhæfing og önnur nauðsynleg þjónusta. Tveir til þrír heyrnarfræðingar hafa farið í hverja ferð. Ef búseta þeirra einstaklinga sem leita eftir þjónustu í þessum ferðum er skoðuð kemur í ljós að í kringum 70% eru frá Akureyri en 30% eru annars staðar frá og búa á svæðinu frá Sauðárkróki í vestri að Stöðvarfirði í austri.

Þá kom einnig fram í viðræðum ráðuneytisins við forsvarsmenn Heyrnartækni ehf. í lok mars 2006 að um það bil 40% af heyrnartækjasölu fyrirtækisins væri til einstaklinga á landsbyggðinni.

Varðandi aðra spurningu er því til að svara að allt eftirlit með heilbrigðisþjónustunni er í höndum landlæknis. Starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og þeirra tveggja einkafyrirtækja sem hafa nú rekstrarleyfi ráðherra til að selja heyrnartæki og nauðsynlega þjónustu við þau falla undir fyrrnefnd lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og lýtur því eftirliti landlæknis. Áður hefur komið fram að við undirbúning breytinga á fyrirkomulagi á sölu heyrnartækja sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn var m.a. óskað eftir áliti landlæknisembættisins á faglegum kröfum. Í svari embættisins, dagsett 1. desember 2006, segir m.a., með leyfi forseta:

„Meðan Heyrnar- og talmeinastöðin var ein um útvegun heyrnartækja og hafði ekki af því beinan fjárhagslegan ágóða var síður ástæða til sérstaks eftirlits vegna ofangreindra þátta. Þetta hefur nú breyst með tilkomu nýrri aðila á markaðnum. Með nokkrum rétti má segja að eftirlitsaðilar heilbrigðisþjónustunnar hafi ekki brugðist nægjanlega við þeim breytingum sem orðið hafa og vísbendingar eru um að eftirlitið með hinni einkareknu þjónustu á þessu sviði sé ekki nægjanlegt.“

Virðulegur forseti. Ástæða er því til að skerpa og efla eftirlit með sölu heyrnartækja, m.a. í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið og vonir mínar standa til þess að landlæknisembættið beiti sér í því.

Varðandi þriðju spurninguna vil ég svara því að hinn 1. janúar síðastliðinn tóku gildi þrjár nýjar reglugerðir sem breyta fyrirkomulagi um sölu heyrnartækja. Breytingarnar felast í að salan er gefin frjáls til þeirra sem eru heyrnarskertir að tilgreindu marki að uppfylltum faglegum kröfum sem landlæknir hefur staðfest að fengnum rekstrarleyfum ráðuneytisins. Einkafyrirtækið Heyrnartækni hefur haft samning við ráðuneytin um sölu á 312 niðurgreiddum heyrnartækjum á ári síðustu fjögur árin. Árlegur kvóti af því tagi heyrir nú sögunni til. Heyrnarskerðingarmörkin sem eru skilyrði fyrir 30.800 kr. ríkisstyrk á hvert tæki sem keypt eru hjá einkaaðilum eru þrengd frá því sem verið hefur. Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar má ætla að um 70% allra heyrnarmælinga falli innan þessara nýju marka. Auk þess er heimild rekstrarleyfishafa til að selja heyrnartæki takmörkuð þegar tilteknir sjúkdómar kunna að vera undirliggjandi heyrnarskerðingunni en slík tilfelli eru sem betur fer fátíð. Í nýju kerfi munu fleiri einstaklingar árlega njóta heyrnartækjastyrks frá ríkinu en var fyrir breytinguna. Samtals seldu einkaaðilar 1.100–1.200 heyrnartæki á árinu 2005 án greiðsluþátttöku ríkisins en reiknað er með að þau verði öll niðurgreidd núna. Samtals voru seld 2.300 heyrnartæki með beinni greiðsluþátttöku ríkisins árið 2005. Á árinu 2007 er því reiknað með að ríkið greiði niður a.m.k. 3.400–3.500 heyrnartæki með beinni greiðsluþátttöku og ætla má að markaðshlutdeild einkaaðila tvöfaldist í breyttu kerfi.