133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup og sala heyrnartækja.

286. mál
[12:08]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að meginbreytingin sem nýlega hefur orðið á varðandi sölu heyrnartækja sé sú að opnað hafi verið fyrir fleiri fyrirtæki til að sinna þessum markaði. Áður var samningur við eitt fyrirtæki og hafði það fyrirkomulag verið nokkuð harkalega gagnrýnt af skiljanlegum ástæðum. Nú er opnað fyrir fleiri, þ.e. þá sem uppfylla ákveðin fagleg skilyrði til að sinna þessari þjónustu. Það kom fram í svari mínu að eftirlitið þarf að verða betra. Ég hef þá trú að landlæknisembættið muni sinna því af þeirri kostgæfni sem það getur núna þegar við breytum í grundvallaratriðum fyrirkomulaginu, þegar við erum ekki með Heyrnar- og talmeinastöðina eina og eitt einkafyrirtæki, þar sem fleiri fyrirtæki koma til.

Auðvitað fara að koma inn alls kyns samkeppnissjónarmið sem ekki voru áður á þessum markaði. Hins vegar er reynt að greina á milli, að þeir sjúklingar sem eru meira heyrnarskertir leiti fremur til Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Það er aðallega af faglegum ástæðum en má vera að endurskoða þurfi það síðar. Við byrjum a.m.k. á að greina þarna á milli þannig að þeir sem búa við verulega heyrnarskerðingu, yfir ákveðnum mörkum sem ég man nú ekki alveg í augnablikinu, fari á Heyrnar- og talmeinastöðina og fái þjónustu þar.

Við þurfum líka að gæta mjög vel að því að þeir sem hugsanlega eru með aðra undirliggjandi sjúkdóma sem valda heyrnarskerðingu fái góða þjónustu. Fyrirkomulagið má ekki valda því að mönnum yfirsjáist slíkt ástand.