133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

íslenskukunnátta starfsmanna á öldrunarstofnunum.

398. mál
[12:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég hef lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvað eru margir starfsmenn öldrunarstofnana á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar sem

a. skilja ekki íslensku,

b. geta ekki tjáð sig á íslensku?

2. Hvaða kröfur eru gerðar um íslenskukunnáttu starfsfólks í umönnunarstörfum?

3. Telur ráðherra að öryggi aldraðra og sjúkra sé tryggt á stofnunum þar sem starfsfólk í umönnunarstörfum hvorki skilur né talar íslensku?

4. Hefur komið til álita að skylda vinnuveitendur til að kosta íslenskunámskeið fyrir þá starfsmenn sem þess þurfa?

Ég er ekki að spyrja að ástæðulausu, frekar en gert er í öðrum fyrirspurnum sem lagðar eru fram. Ég hef eins og líklega allir í salnum heyrt fjölmargar sögur af ýmsum stofnunum, öldrunarstofnunum og heilbrigðisstofnunum á Íslandi, þar sem uppistaða starfsfólksins skilur hvorki íslensku né talar hana nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég hef heyrt af aðstandendum sem sitja hjá sjúkum ættingjum sínum sem ekki hafa getað gert sig skiljanlega við viðkomandi starfsmenn, af prestum sem hafa þjónað gamalmennum og ekki getað gert sig skiljanlega við starfsmenn, hvorki á íslensku, ensku né öðru tungumáli.

Þetta er auðvitað ekki viðunandi, herra forseti. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna starfsfólkið. Eins og við vitum öll vinnur það störf sín vel og sinnir oft störfum sem þeir sem tala íslensku sækja ekki um og ekki tekst að manna vegna þenslu í íslensku atvinnulífi. Ég tel að gera þurfi kröfur til atvinnurekenda um að bæta úr kunnáttuleysi í íslensku. Mín skoðun er sú að öryggi geti verið ógnað ef ekki er lágmarkskunnátta til staðar.