133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

íslenskukunnátta starfsmanna á öldrunarstofnunum.

398. mál
[12:18]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Kannski hefði þessi fyrirspurn þurft að vera skrifleg líka því að það er erfitt að grilla í þær tölur sem hæstv. ráðherra ber fram. 35 og 55 á höfuðborgarsvæðinu og það segir ráðherrann að séu lágar tölur. Það væri fróðlegt að vita hvar þessir 35 og 55 eru, hvort þeir sem ekki tala íslensku eða skilja ekki íslensku eru á einum stað, fáeinum eða hvort þeir eru dreifðir um ýmsar stofnanir. Hér þyrfti að gera betur.

Ég hins vegar fagna þessari fyrirspurn og svörum við henni því að þetta er mál sem þarf svo sannarlega að ræða. Það er mín skoðun í ákaflega stuttu máli að það eigi alls staðar að tala íslensku, í umönnun og alls staðar í allri þjónustu og það eigi að standa að skipulegu námskeiðahaldi fyrir það starfsfólk sem við ráðum í þessi störf sem ekki hefur vald á íslenskri tungu.