133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

íslenskukunnátta starfsmanna á öldrunarstofnunum.

398. mál
[12:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þátttöku í þessari umræðu. Ég tel nefnilega að við séum að tala um ákaflega mikilvægt mál. Þó að það sé ekki tiltakanlega há tala og ekki há prósenta, liðlega 110 manns samtals á öllu landinu sem annaðhvort ekki skilja íslensku eða geta ekki tjáð sig á íslensku í umönnunarstörfum, skiptir máli í þessu samhengi eins og hv. þm. Mörður Árnason kom inn á hvernig þetta starfsfólk raðast niður á stofnanir.

Það skiptir líka máli, bara svo að dæmi sé tekið, hvort þetta starfsfólk er eitt á vakt eða hvort það er með öðrum sem talar íslensku. Næturvaktir eru yfirleitt ekki mannaðar mörgum og ef þar er starfsfólk sem ekki skilur íslensku eða ekki getur tjáð sig á íslensku erum við auðvitað í vondum málum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að skylda stofnanir til að láta kenna starfsfólki sínu sem ekki getur tjáð sig eða skilur ekki íslensku eitthvert lágmark í tungumálinu okkar því að við erum að tala um umönnun aldraðra og sjúkra. Það er auðvitað ekki hægt að bjóða upp á að það skiljist ekki hvað fólk er að tala um. Það eykur ekki á vellíðan umræddra einstaklinga ef þeir geta ekki gert sig skiljanlega. Samskipti við starfsfólkið eru eitt af því sem gerir lífið bærilegra inni á svona stofnunum þannig að það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að því ágæta fólki sem sinnir þessum störfum sé gert kleift að hafa samskipti við þá sem búa á stofnunum.