133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

íslenskukunnátta starfsmanna á öldrunarstofnunum.

398. mál
[12:21]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið gert að umtalsefni hvort það geti verið að þessir einstaklingar séu allir á einum stað eða dreifðir. Auðvitað skiptir það máli. Ég er ekki með það sundurliðað hér en mér finnst mjög líklegt að þeir séu dreifðir, mér finnst eiginlega að það hljóti að vera en ég er ekki með þá sundurliðun hér. Ég tel að það sé rétt stefna sem hjúkrunarheimilin og öldrunarstofnanirnar hafa sem er sú að þessir umönnunaraðilar eigi að tala sem besta íslensku. Í þeirri stöðu sem við erum í núna á vinnumarkaði kemur í ljós að lág prósenta að mínu mati, milli 2 og 3%, getur það ekki. Þetta er miklu lægri tala en gildir almennt um útlendinga á vinnumarkaði í dag. Þeir eru um 10% og það er mín skoðun að hefðu ekki komið til þessir nýju starfsmenn frá útlöndum hefðum við verið í talsvert miklum vanda í öldrunarþjónustunni.

Ég tel að þrátt fyrir allt hafi verið jákvætt að hingað hafi komið erlendir aðilar til að starfa með okkur í þessum mikilvægu umönnunarstörfum en að sjálfsögðu tek ég undir að það væri best ef allir gætu tjáð sig á íslensku (MÁ: Hvað ert þú að gera …?) þannig að ég vona að (Gripið fram í.) þetta átak sem menntamálaráðuneytið stendur m.a. fyrir, að kenna íslensku, muni heppnast vel og ég er mjög ánægð með að öldrunarstofnanirnar hafi margar boðið upp á íslenskunámskeið fyrir þessa aðila.