133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

geðheilbrigðisþjónusta við aldraða.

505. mál
[12:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helga Þorbergsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Í byrjun desember 2005 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra faghóp til að koma með ábendingar um hvernig bæta megi geðheilbrigðisþjónustu við aldraða hér á landi. Hópnum var ekki ætlað að fjalla sérstaklega um úrræði fyrir heilabilaða. Formaður hópsins var Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri á sviði öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Auk hennar áttu þar sæti 14 aðilar, flestir með breiða faglega þekkingu á málaflokknum og þar á meðal margir af okkar helstu sérfræðingum á sviði geð- og öldrunarmála.

Hópurinn skilaði stuttri greinargerð með ábendingum til ráðherra í lok mars 2006 svo sem honum hafði verið ætlað. Samstaða var innan hópsins um að setja fram fáar ábendingar um þá þætti sem brýnast væri að vinna að. Í grófum dráttum varða þær ábendingar eftirtalin svið:

Eflingu forvarna og aukið hlutverk heilsugæslunnar, m.a. með aðkomu fleiri fagstétta á þeim vettvangi, svo og með góðu framboði á fræðslu til fagstétta innan heilsugæslunnar á heilbrigðisvanda aldraðra af geðrænum toga.

Sérhæfða þjónustu fyrir aldrað fólk með geðsjúkdóma. Greining þessara sjúkdóma hjá öldruðum er að mörgu leyti frábrugðin greiningu hjá yngra fólki. Þess vegna hafa flestar þjóðir komið á fót sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. Í ábendingum hópsins er lagt til að stofnað verði fagteymi sérfræðinga á geð- og öldrunarsviði sem m.a. sinnir ráðgjafarþjónustu. Einnig er lagt til að komið verði á fót göngudeild fyrir aldrað fólk með geðsjúkdóma, geðdeild fyrir aldraða með geðsjúkdóma, ráðgjafarþjónustu fyrir heilsugæslu, spítaladeildir og hjúkrunarheimili, sérhæfðri hjúkrunardeild fyrir geðsjúka aldraða.

Nefndarmenn lögðu áherslu á að þótt komið verði á fót sérhæfðri þjónustu fyrir aldrað fólk með geðsjúkdóma munu aldraðir eftir sem áður eiga aðgang að þeirri almennu geðheilbrigðisþjónustu sem veitt er í landinu til jafns við aðra. Sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta fyrir aldraða er hugsuð sem viðbót við þá þjónustu sem fyrir er þegar þörf er fyrir annars konar úrræði og meðferð en unnt er að veita á þeim vettvangi. Spurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er hvort og þá hverjum af ábendingum hópsins hafi verið fylgt eftir. Ef svo er ekki, hvort ráðherra hyggist fara að ábendingum hópsins, og þá hvaða.