133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

greiðsluaðlögun.

481. mál
[13:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Á nokkrum undanförnum þingum hef ég lagt fram frumvarp um greiðsluaðlögun. Markmið frumvarpsins er að koma á úrræði til að aðstoða einstaklinga sem eru í mjög alvarlegum greiðsluerfiðleikum og er lagt til að tekin verði upp í lög um gjaldþrotaskipti sérstakur kafli um greiðsluaðlögun sem veitir einstaklingum sem ekki stunda atvinnurekstur meiri möguleika á því að takast á við greiðsluvanda sinn en nú er.

Hér er um að ræða nýtt úrræði og er greiðsluaðlögun ætluð þeim sem árangurslaust hafa reynt ráðgjöf og aðstoð við að leysa úr greiðsluerfiðleikum sínum og ekkert blasir við annað en viðvarandi erfiðleikar eða gjaldþrot. Hugsunin að baki þessu nýja úrræði er sú að um er að ræða leið sem ekki er aðeins til hagsbóta fyrir einstaklinga eða heimili í miklum greiðsluerfiðleikum heldur einnig fyrir lánardrottna og samfélagið í heild.

Greiðsluaðlögun gefur fólki möguleika á að vinna sig út úr fjárhagserfiðleikum án þess að missa eigur sínar og húsnæði í gjaldþrot. Auk þess gefur sú leið möguleika að takast á við fjárhagserfiðleika með nýrri og uppbyggilegri sýn úr annars vonlausri stöðu. Greiðsluaðlögun eykur líkur á því að lánardrottnar fái skuldina að öllu eða einhverju leyti greidda fremur en að tefla kröfunni í tvísýnu í gjaldþrotameðferð þar sem skuldir gjaldanda eru langt umfram eignir, auk þess sem það dregur úr kostnaðarsömum innheimtuaðgerðum lánardrottna sem oft skila litlum árangri. Greiðsluaðlögun dregur líka úr kostnaði sem oft fellur á samfélagið þegar fjölskyldur komast í greiðsluþrot. Kostnaður við nauðungarsölu og gjaldþrot fellur á hið opinbera, upplausn fjölskyldna og félagsleg vandamál fylgja oft í kjölfarið og eru dýr bæði einstaklingum og fjölskyldum þeirra og samfélaginu í heild. Hér er því verið að skapa möguleika sem skuldari, lánardrottinn og samfélagið í heild geta fremur haft ávinning af en með þeim úrræðum sem nú bjóðast. Umrædd leið hefur verið reynd í Noregi, var tekin upp í byrjun árs 1993 með mjög góðum árangri

Stjórnvöld hafa kosið að fara aðrar leiðir í þessum efnum heldur en taka upp greiðsluaðlögun. Það eru m.a. úrræði sem ákveðin voru fyrir einstakling í greiðsluvanda með lögum um réttaraðstoð einstaklinga sem leita nauðasamninga og lögum um mögulega niðurfellingu á tekju- og eignarskatti og hins vegar niðurfellingu á skuldum við Innheimtustofnun sveitarfélaga. Ljóst er, virðulegi forseti, að þessar leiðir geta ekki komið í stað greiðsluaðlögunar. Í fyrirspurnum sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur ítrekað beint til hæstv. fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherra, hefur komið í ljós að þau úrræði sem ríkisstjórnin greip til í staðinn fyrir greiðsluaðlögun hafa gagnast mjög fáum.

Þess vegna spyr ég: Er ráðherra reiðubúinn til að beita sér fyrir löggjöf um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum líkt og gert hefur verið í Danmörku og Noregi?