133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

greiðsluaðlögun.

481. mál
[13:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að fagna orðum hæstv. viðskiptaráðherra, að loksins sjái til lands og að augu stjórnvalda eru að opnast fyrir þessari mikilvægu leið fyrir heimilin í landinu og einstaklinga sem komnir eru í algjört þrot með málefni sín og ekkert blasir við annað en að fólk missi eigur sínar.

Hæstv. ráðherra talar um að skipa nefnd til að skoða málið. Ég vil í því sambandi minna á að ég sem félagsmálaráðherra 1993 skipaði einmitt nefnd til að skoða leiðir í þessu máli sem þá höfðu verið farnar í Noregi. Niðurstaðan varð sú að það var allt sem mælti með því að fara ætti umrædda leið.

Ég vil líka segja að Neytendasamtökin hafa ítrekað tekið undir málflutning okkar í Samfylkingunni og þau frumvörp sem við höfum lagt fram þar að lútandi og hvatt til þess að Alþingi samþykkti slíka löggjöf.

Ég er alveg viss um, virðulegi forseti, að þetta hefði bjargað fjölda fólks sem lent hefur í árangurslausu fjárnámi, t.d. á árunum 2001–2004, en þá voru það um 17.300 einstaklingar.

Ef við horfum til fyrirspurnar á þingi í fyrra kom fram að ungt fólk á aldrinum 15–30 ára sem hafði lent í gjaldþrotum og greiðsluerfiðleikum voru um 5.500 manns, ungt fólk á aldrinum 15–30 ára. Ég er alveg viss um að ef þessi löggjöf hefði verið til þegar við hvöttum til að hún yrði sett árið 1993 og allar götur síðan, þá hefði það bjargað stórum hluta þessa fólks frá gjaldþroti og fjárhagserfiðleikum.

Virðulegi forseti. Ástæða er til að fagna því skrefi sem hér er stigið í dag með orðum hæstv. viðskiptaráðherra og ég vil hvetja ráðherrann til að hraða því verki og spyr hann: Er von til þess að við munum sjá frumvarp þar að lútandi áður en þingi lýkur í vor?