133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

vextir og verðtrygging.

499. mál
[13:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn um vexti og verðtryggingu og fyrsti töluliður þeirrar fyrirspurnar er hvort viðskiptaráðherra — ég man nú ekki hvernig þetta er nákvæmlega orðað, fyrirspurninni var eitthvað breytt, ég spyr því hæstv. forseta hvort hann sé með hana.

En inntakið í 1. tölulið var að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann væri sammála því sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur sagt um að rétt sé að afnema verðtryggingu á lánaskuldbindingum. — Ég fagna því að svo vill til að hæstv. landbúnaðarráðherra er hér viðstaddur og getur tekið þátt í þessum umræðum og gaman verður að heyra hvort hæstv. viðskiptaráðherra sé sammála landbúnaðarráðherra um að afnema eigi verðtrygginguna.

Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði einnig í viðtali við Ríkisútvarpið að ráðast þyrfti á vaxtaokur bankanna. Um það fjallar 2. og 3. töluliður í fyrirspurninni. Í því sambandi vil ég vitna til þess að þetta vaxtaokur er orðið algjörlega óþolandi sem neytendur láta yfir sig ganga í bönkunum. Ég er þá einungis að tala um dráttarvexti og vexti af yfirdráttarlánum þó vel mætti taka fleiri skuldaflokka. Þannig hafa t.d. dráttarvextir hækkað úr 17% árið 2003 í 25% á þremur árum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að þetta sé eðlilegt. Alþingi og stjórnvöld geta haft það í hendi sér að lækka þá vexti.

Ég hef flutt frumvarp, bæði á þessu þingi og síðasta þingi, um að á þessum málum verði tekið sem leitt gæti til a.m.k. tveggja prósentustiga lækkunar á dráttarvöxtum og yfirdráttarlánum. Það ætti varla að koma mikið við bankana, virðulegi forseti, sem juku tekjur sínar af vöxtum og þjónustutekjum um 56 milljarða eða 105% fyrstu sex mánuðina á síðasta ári samanborið við fyrstu sex mánuði þarsíðasta árs.

Ég hef lagt til ákveðna leið í þessu efni. Sú leið felur í sér að dráttarvextir sem eru samsettir af vöxtum algengustu skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana, að viðbættum svokölluðu vanefndaálagi sem ákveðið er af Seðlabankanum, bankinn hefur svigrúm til að ákveða þetta á bilinu 7–15% — ég vil minnka þetta svigrúm í því frumvarpi sem ég hef sett fram.

Annars staðar á Norðurlöndunum er þetta fastbundið í lögum hvað dráttarvextir mega vera eða vanefndaálagið. Og af því að hæstv. ráðherra vitnaði í talsmann neytenda áðan og tók mark á orðum hans, vil ég líka vitna til þess að talsmaður neytenda segir í umsögn sinni um þetta þingmál mitt, að hann telji að þetta eigi að ákveða fortakslaust í lögum og segir að það standist ekki lög að verið sé að framselja svo mikinn sveigjanleika í ákvörðun dráttarvaxta til Seðlabankans eins og Alþingi (Forseti hringir.) hefur gert.