133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fjárveitingar til skógræktar.

504. mál
[14:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helga Þorbergsdóttir) (S):

Herra forseti. Eins og hæstv. landbúnaðarráðherra gat um í upphafi máls síns, að hann gæti einfaldlega svarað með því að segja já, get ég á sama hátt sagt að ég gæti þakkað fyrir góð svör. En um leið og ég geri það vil ég þakka þeim þingmanni sem tók þátt í umræðunni. Ég þakka sem sagt landbúnaðarráðherra fyrir skýr svör og tek undir orð hans um margþætt áhrif skógræktar.

Ég held að umræðan um kolefnisbindingu og umhverfismál í tengslum við skógrækt sé afar mikilvæg og muni eflast og aukast mjög á næstu árum. Ég vil benda á afar áhugaverða umræðu sem skógfræðingar hafa haft uppi, bæði í ræðu og riti, á undanförnum dögum, mánuðum og árum, t.d. nýja grein í síðasta blaði Skógræktarritsins þar sem sérstök áhersla er lögð á þetta og þar sem nálgunin á málaflokkinn er afar áhugaverð og svolítið nýstárleg.