133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fjárveitingar til skógræktar.

504. mál
[14:07]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég vil sérstaklega taka fram að fyrir nokkrum árum var bæði deilt um gildi skógræktar á Íslandi og líka um hvað skógrækt þýddi. Þá töluðu menn jafnvel eingöngu um skógrækt sem umhverfismál en skógrækt er náttúrlega um víða veröld mikið landbúnaðarmál og í mörgum löndum einn stærsti tekjustofn bændanna. Ég minnist þess að í upphafi ráðherraferils míns gat ég þess að skógrækt væri landbúnaður. Þá vakti það, mér til undrunar, töluverða athygli.

Það sjá allir að það hefur verið farsælt að færa skógræktarverkefnin til bændanna. Þeir búa til þessa auðlind. Það eru 80 ár síðan Írar, frændur okkar, fóru í sams konar verkefni og hafa gert land sitt að skógræktarlandi og eiga þar mikilvæga auðlind. Ég held að við séum á réttu róli hér á landi hvað þetta varðar og getum séð mikinn árangur af þessu og sjáum þegar þann árangur að í lundi nýrra skóga vex áhugi á búsetu, heilsárshúsum. Þjóðin öll hefur í sjálfu sér græna fingur. Margir hafa flust á lögbýli sem þeir hafa keypt úr jörðum eða heilar jarðir til að búa í sveitinni og taka þátt í skógræktarverkefnum og því mikla menningarstarfi. Ég trúi því, eins og ég sagði áðan, að þjóðarviljinn sé til staðar. Þingviljinn er til staðar og ég eins og aðrir hér mun leggja mitt lóð á þær vogarskálar næstu árin að efla þennan atvinnuveg og þessa skyldu okkar við land okkar, bæði á Alþingi og í umræðu í þjóðfélaginu hafi ég til þess fylgi og krafta.