133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

aðgerðaáætlun til að stemma stigu við mansali.

434. mál
[14:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Íslenska ríkisstjórnin hefur einsett sér að vinna gegn mansali á markvissan hátt. Það hefur hún m.a. samþykkt á norrænum vettvangi og má nefna t.d. að hún hefur verið virkur þátttakandi í norrænu/baltnesku átaki sem staðið hefur allt fram á — ja, ég held að því hafi lokið á síðasta ári, 2006, átaki sem norrænu ríkisstjórnirnar efndu til í samvinnu við Eystrasaltsríkin til að vinna gegn mansali. Frá þessu átaki er sagt á heimasíðum ráðuneytanna á Íslandi.

Jafnréttisráðherrar og dómsmálaráðherrar Norðurlandanna hafa líka undirritað yfirlýsingu um að þeir muni halda áfram vinnu varðandi átakið sem gert hefur verið og við vitum að sennilega á næsta Norðurlandaráðsþingi munum við eiga von á skýrslu frá ríkisstjórnunum um niðurstöðu þessara mála. Í yfirlýsingunni sem varðar þetta mál samþykkja ráðherrarnir líka að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun hver í sínu landi.

Nágrannalönd okkar hafa verið með í gildi aðgerðaáætlanir af þessu tagi gegn mansali undanfarin ár. Danir gáfu út sína fyrstu 2002, hún gilti til þriggja eða fjögurra ára og það er verið að endurnýja hana ef það er ekki komin ný. Norðmenn eru með sína aðgerðaáætlun 2005–2008 en ekkert bólar á íslenskri framkvæmdaáætlun í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Mansal til kynlífsþrælkunar hefur verið mjög til umfjöllunar i nágrannalöndum okkar og við höfum aldeilis ástæðu til þess að ætla að það teygi anga sína hingað til lands. Glæpastarfsemi af þessu tagi er orðin ótrúlega umfangsmikil í veröldinni og eftir því sem nýjustu fréttir herma og tölur frá Sameinuðu þjóðunum segja eru glæpasamtök sem stunda sölu á konum og börnum til kynlífsþrælkunar farin að velta meiri fjármunum á ári en þeir sem smygla vopnum eða eiturlyfjum.

Á fundi borgaranefndar Norðurlandaráðs í Lahti í Finnlandi síðasta haust kom fram að á Norðurlöndunum væri vandinn verulegur. Okkur skorti kannski í sjálfu sér ekki lagasetningar eða alþjóðlega samninga heldur skorti okkur fyrst og fremst fjármagn og pólitískan vilja.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra hvort okkur skorti kannski pólitískan vilja hér í ljósi þess að aðgerðaáætlun gegn mansali hefur ekki enn litið dagsins ljós þrátt fyrir þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur í þeim efnum.