133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

aðgerðaáætlun til að stemma stigu við mansali.

434. mál
[14:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Nú held ég að hæstv. ráðherra misskilji aðeins hlutverk sitt. Ég sagði áðan að lagasetningu skorti ekki og ég viðurkenni fúslega að við erum með lagasetningu sem er til fyrirmyndar í þessum efnum. Ég þekki vel kynferðisbrotakafla hegningarlaganna og er að vinna hann í allsherjarnefndinni eins og hæstv. ráðherra nefnir.

En ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra, úr því að hann nennir ekki að eyða tíma sínum eða ráðuneytisstarfsmannanna í að semja aðgerðaáætlun um það hvernig við ætlum að bregðast við mansali og koma í veg fyrir að það teygi anga sína hingað til lands: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar t.d. í þeim efnum hvað á að gera við fórnarlömb mansals þegar og ef þau rekur á fjörur okkar hér? Hvaða stefnu hefur ríkisstjórnin í því að styðja konur og börn sem koma til landsins í gegnum glæpasamtök sem hafa mansal sem aðalvettvang í veröldinni? Hvernig ætlar hann að bjóða þeim félagslegan stuðning, hvað stendur þessu fólki til boða t.d. varðandi tryggingar, félagslega aðstoð, íverustaði og annað þar fram eftir götunum? Það er það sem norrænu þjóðirnar setja í sínar aðgerðaáætlanir.

Danirnir hafa tvíþætta áætlun þar sem þeir annars vegar leggja til ákveðna þætti sem varða stuðning við fórnarlömbin og í hina röndina eru þeir beinlínis með aðgerðir til að fyrirbyggja sölu á konum og börnum til kynlífsþrælkunar. Það eru nefndar hjálparlínur sem eru reknar fyrir stuðning hins opinbera, ákveðnir starfshópar eru stofnaðir, markvisst samstarf við sjálfstæð félagasamtök sem starfa á þessum vettvangi og þar fram eftir götunum. Það eru þessir hlutir sem þurfa að vera í aðgerðaáætlun. (Forseti hringir.) Og það er ekkert mikið mál að setja eina saman. Það má t.d. þýða þá (Forseti hringir.) norsku sem er nýútkomin.