133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

hlutfall verknámsnemenda.

331. mál
[14:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð þess oft vör sem þingmaður í landsbyggðarkjördæmi að víða er sár skortur á iðnaðarmönnum í atvinnulífinu á landsbyggðinni. Mér er líka kunnugt um að atvinnufyrirtæki hafa boðið upp á samstarf við skólana. Ég get nefnt sem dæmi 3xStál á Ísafirði sem hefur boðið Menntaskólanum á Ísafirði upp á að nemendur þeirra fengju þjálfun í þeim tækjabúnaði sem er að finna í 3xStál í grein sinni, en ekki hefur fengist heimild til þess frá ráðuneytinu. Ég veit ekki af hverju það er og tel það mjög miður því að fyrirtækið er mjög framarlega í sinni grein og með fyrsta flokks tækjabúnað.

Skipulag náms og kennslunnar er með þeim hætti að nemendur geta víðast hvar ekki lokið framhaldsnámi í iðngreinum á heimasvæði sínu heldur neyðast þeir til að fara í flestum tilfellum til Reykjavíkur til að ljúka námi. Það er skoðun okkar íbúa landsbyggðarinnar að það sé m.a. ástæðan fyrir því að jafnmikill skortur er á iðnaðarmönnum eins og raun ber vitni, vegna þess að fólk sest síðan að á þeim svæðum þar sem það hefur lært, hefur ekki fyrir því að flytja sig til baka aftur og þetta háir atvinnulífinu á landsbyggðinni.

Ég er þeirrar skoðunar að skipulag náms skipti miklu máli um það hvar fólk setur sig niður að námi loknu og jafnvel hvaða námsleiðir fólk velur sér. Ég hef því sett fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hvert var meðalhlutfall nemenda á verknámsbrautum af heildarfjölda framhaldsskólanemenda árin 2000–2005 á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar?

2. Hvert var sama meðalhlutfall á fimm ára tímabili fyrir uppsetningu svonefndra móðurskóla verknámsgreina á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar?

Þess ber auðvitað að geta líka að mikið hefur skort á að veitt sé nægilega mikið fjármagn til verknáms yfir höfuð því að eins og við vitum er dýrara að reka verknám en bóknám og það er án efa líka þáttur í því (Forseti hringir.) ástandi sem ríkir.