133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

hlutfall verknámsnemenda.

331. mál
[14:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og þær vangaveltur líka sem hv. þingmaður setti fram. Ég tek undir það með þingmanninum að afar mikilvægt er að atvinnufyrirtækin víðs vegar á landinu, ekki bara á landsbyggðinni heldur líka á suðvesturhorninu, tengist verknámsskólunum og iðnskólunum enn betur en nú er. Ég get upplýst hv. þingmann um að formaður skólanefndar og skólameistari ræddu málefnin varðandi Ísafjörð á sínum tíma og það er ekki þannig að heimild vanti frá ráðuneytinu, síður en svo. Ég hvatti þau einmitt eindregið til að fara í þetta samstarf við fyrirtækið 3xStál. Ég heimsótti reyndar það fyrirtæki með þingflokki sjálfstæðismanna og það er afar skemmtilegt og spennandi fyrirtæki. Það eru einmitt miklir möguleikar líka fyrir skólann sem slíkan, annars vegar skólakerfið og hins vegar fyrir atvinnulífið, að tengjast með þeim hætti sem menn eru að ræða. Ég er því miklu fremur hvatamaður þess að menn haldi áfram að nýta þá aðstöðu sem fyrirtækin bjóða upp á, sem hugsanlega getur um leið leitt af sér einhvern sparnað fyrir skólana sem væri þá hægt að nýta í aðra hluti til uppbyggingar.

Fyrri fyrirspurn hv. þingmanns er: „Hvert var meðalhlutfall nemenda á verknámsbrautum af heildarfjölda framhaldsskólanemenda árin 2000–2005 á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar?“

Meðalhlutfall nemenda í starfsnámi á landsbyggðinni af heildarfjölda framhaldsskólanemenda í skólum á landsbyggðinni var 35% á árunum sem um er spurt. Á sama tímabili var meðalhlutfall starfsnáms nemenda á höfuðborgarsvæðinu 36% af heildarfjölda nemenda í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, en í þessum tölum er um að ræða nemendur í dagskóla og flokkun á landsvæði byggir á staðsetningu skóla, staðsetningu og viðmið sem við þekkjum, þ.e. höfuðborgarsvæðið en til landsbyggðar teljast landsvæðin utan Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis, svo það sé tekið fram.

Síðan spyr hv. þingmaður í öðru lagi: „Hvert var sama meðalhlutfall á fimm ára tímabili fyrir uppsetningu svonefndra móðurskóla verknámsgreina á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar?“

Í lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, er í 31. gr. ákvæði þess efnis að menntamálaráðherra geti að fenginni umsögn starfsgreinaráðs og stofnaðila gert framhaldsskóla eða deild í framhaldsskóla að kjarnaskóla um lengri eða skemmri tíma. Ákvæðin um kjarnaskóla eða móðurskóla í starfsnámi er almennt að finna frá og með árinu 2002 í skólasamningum sem menntamálaráðuneytið gerir nú við framhaldsskólana. Því verður í þessu svari gerð grein fyrir meðalhlutfalli nemenda í starfsnámi af heildarfjölda nemenda á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar á árabilinu 1997–2001. Meðalhlutfall nemenda í starfsnámi á landsbyggðinni af heildarfjölda framhaldsskólanemenda í skólunum á landsbyggðinni var á þessu tímabili, þ.e. frá 1997–2001, 35%. Á sama tímabili var meðalhlutfall starfsnámsnemenda á höfuðborgarsvæðinu 34% af heildarfjölda nemenda í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu.

Við þetta er því að bæta, frú forseti, að ég tel mikilvægt og ég finn að við hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir tölum sama máli hvað það varðar að efla þarf enn frekar starfsnáms- og verknámsskólana, efla starfsnámið sem slíkt. Ég bind miklar vonir við þá vinnu sem nú stendur yfir. Ýmsar nefndir munu skila mér niðurstöðum á næstu dögum og vikum í tengslum við m.a. hin tíu skref, sáttmálann og samkomulagið sem gert var við Kennarasamband Íslands. Þar er sérstaklega verið að líta til niðurstöðunnar sem fengin var í starfsnámsskýrslunni sem rædd var á Alþingi. Allir stjórnmálaflokkar fögnuðu niðurstöðu þeirrar nefndar sérstaklega og við náttúrlega berum þá von í brjósti að þær tillögur sem nú muni líta dagsins ljós, sem eru niðurstöður og afrakstur nefndar sem er að vinna núna í ljósi þess umfangs, skili okkur því að við getum rætt um eflingu starfsnáms og við sjáum fram á að það muni eflast enn frekar til lengri tíma litið, en eins og við þekkjum og vitum erum við að tala um að fyrirkomulagið til framtíðar verði það að við ræðum um eitt stúdentspróf og förum ekki í aðgreiningu á bóknámi og verknámi og vonumst til þess að það hugsanlega leiði þá til viðhorfsbreytingar í samfélaginu sem síðan leiði til eflingar starfsnáms.