133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

tilraunaverkefnið Bráðger börn.

441. mál
[15:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Pétri Blöndal, fyrir þessa fyrirspurn sem er merkileg fyrir margra hluta sakir því að verkefnið sem hún snertir var afar athyglisvert. Það hefur m.a. að mínu mati leitt til þess að menn fóru í auknum mæli að huga að því að auka enn frekar sveigjanleika í námi og í rauninni þá sveigjanleika á alla kanta og ekki síður til að mæta líka þörfum þessara bráðgeru nemenda. Ég tel að sú endurskoðun sem nú stendur yfir taki sérstaklega á þessu en einnig ýmsar ákvarðanir sem teknar hafa verið til að koma til móts við þarfir stórs hóps nemenda í grunnskólunum til að fá tækifæri til að taka t.d. samræmdu prófin fyrr og fara þannig fyrr upp á milli skólastiga. Þetta er allt gert með það í huga að einstaklingarnir í grunnskólunum, að jafnaði eru um 4.500 í fæðingarárgangi í grunnskólunum, hafa mjög mismunandi þarfir og oft á tíðum hefur þunginn kannski verið meira á þarfir annarra en þeirra sem teljast í hópi bráðgerra barna. Það er hins vegar ljóst að við vitum af þeim og við erum líka að fara sérstaklega yfir málefni þessa hóps.

Hv. þm. Pétur Blöndal spyr um stöðu tilraunaverkefnisins Bráðger börn. Það verkefni hafði síðan undirtitilinn „Verkefni við hæfi“ og stóð fram til 2004 en byrjaði 2001 að mig minnir. Ég vil eins og hv. þingmaður minna á að þetta verkefni var ekki á vegum menntamálaráðuneytisins sem slíks heldur var um að ræða samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Heimilis og skóla. Námskeiðin sem nemendur gátu sótt voru ætluð börnum í 6.–9. bekk grunnskóla sem sköruðu fram úr í námi en fengu ekki alltaf námsefni við sitt hæfi í skólanum og voru tilbúin að vinna að fleiri og meira ögrandi viðfangsefnum en almennt er boðið upp á í skyldunámi. Kennarar úr Háskóla Íslands sáu um kennsluna ásamt nemendum í meistaranámi við Háskóla Íslands og kennslan fór að langmestu leyti fram í húsnæði háskólans.

Nemendur fengust við fjölbreytt verkefni á sviði raunvísinda, hagfræði, viðskiptafræði, lögfræði, heimspeki, tækni og almennra vísinda. Markmið tilraunaverkefnisins var að örva áhuga bráðgerra nemenda á námi sem felur í sér agaða rökhugsun og einnig skapandi hugsun líkt og gerist í háskólanámi, að bjóða börnum sem eru sérstaklega fljót að tileinka sér óhlutbundna hugsun tækifæri til að dýpka þekkingu sína, færni og skilning með ýmiss konar viðbótarviðfangsefnum sem eru við hæfi og samræmast kröftum og námsgetu þeirra barna sem hafa þessar sérstöku námsgáfur til að kynnast t.d. hlutverki vísinda í samfélaginu og störfum vísindamanna, og að leiða saman börn með sérstakar námsgáfur.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns áðan að oft og tíðum er sjálfsmynd einmitt þessara barna brotin. Þau lenda líka oft í einelti af því að þau eru stundum nokkuð sérstök og þess vegna er svo brýnt að reyna að mæta þörfum þeirra með ýmsu móti og fjölbreyttum hætti. Bráðger börn eru líka hópur sem ekki er allur eins. Það verður líka að hafa það í huga að við verðum að mæta þeim með ýmsum hætti.

Ég vil geta þess að mér skilst að á dagskránni á morgun sé ég með framsögu varðandi nýtt fyrirkomulag um námsgögn sem er í rauninni mjög mikil breyting á námsgagnakerfinu hér á landi. Það nýja fyrirkomulag mun veita skólunum tækifæri til að kaupa t.d. námsgögn af sjálfstæðum aðilum til að mæta þeim þörfum sem eru fyrir börnin innan þeirra skóla. Það eykur möguleika fyrir skólana, skólastjóra og kennara til að koma einmitt með námsefni sem er við hæfi, hæfi þessa hóps sem er hugsanlega innan skólanna víðs vegar um landið.

Samkvæmt upplýsingum sem menntamálaráðuneytið hefur aflað var mikil ánægja með námskeiðin og á það við um alla, nemendur, foreldra og kennara. Verkefnið var metið í lok hvers vetrar og niðurstaðan sýndi að um mikilvægt verkefni væri að ræða. Aðstandendur verkefnisins lögðu viðamikla könnun fyrir þátttakendur og forráðamenn þeirra vorið 2003 og töldu menn mikilvægt að nýta þessa reynslu og reyna að halda því áfram með einhverjum hætti.

Þingmaðurinn spyr einnig hvort verkefnið nái til barna utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og ég gat um var þetta verkefni samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Heimilis og skóla og síðan bættust við nokkur nágrannasveitarfélög (Forseti hringir.) eins og Bessastaðahreppur, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur og Mosfellsbær. (Forseti hringir.) Eins og staðan er núna vitum við að þetta verkefni er ekki lengur í boði en verið er að fara yfir þessi málefni.