133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

tilraunaverkefnið Bráðger börn.

441. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég er ekki alls kostar ánægður með þau. Mér finnst menn fara þarna á hraða snigilsins og við erum búin að missa þrjá árganga út úr þessu kerfi þó að það færi í gang strax. Ég held að þjóðin megi ekki við því að missa út þessa hæfileika því að við erum að tapa þessum hæfileikum. Ég held að verkefnið hafi einmitt brýnt börnin til þess að nýta hæfileika sína. Ég hef rekist á nokkur þessara barna síðan, bæði í pólitík og annars staðar, og þau hafa virkilega fengið örvun af þessu verkefni.

Þess vegna brýni ég hæstv. menntamálaráðherra til að taka þetta verkefni föstum tökum eða fá einhvern aðila utan skólakerfisins til að sjá um það eins og gert var þarna. Þannig nýtum við þá hæfileika sem þarna eru til staðar. Við megum hreinlega ekki við að tapa þeim því að þessi börn eru oft og tíðum auðlind þjóðarinnar. Við getum ekki látið verkefnið deyja út.

Þegar verkefninu lauk var talað um að það færi inn í grunnskólana og þar yrðu búin til viðeigandi verkefni fyrir börnin. Mér sýnist að það hafi ekki verið gert. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að gera annaðhvort mikla bragarbót í því að koma til móts við þarfir þessa hóps eða að fá til þess aðila utan skólakerfisins til að stuðla að því. Það er mikill áhugi hjá foreldrunum, mikill áhugi hjá kennurum í háskólanum og mikill er áhuginn hjá krökkunum. Það er jafnvel spurning um að fá þá krakka sem fóru í gegnum þetta verkefni á sínum tíma til að skipuleggja verkefnið og sjá um það.