133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

tilraunaverkefnið Bráðger börn.

441. mál
[15:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tel að í ljósi þess að grunnskólarnir eru reknir af sveitarfélögunum, eins og við þekkjum og vitum, eigi sveitarfélögin líka — eins og þau sjá ágætlega um ákveðna þætti skólastarfsins, t.d. sérkennslu og fleira — að sjá um hagsmuni þessara barna. Þau eiga að sjá um hagsmuni allra barna.

Það má ekki líta svo á að ég sé að skáskjóta mér undan ábyrgð á þessu máli, síður en svo, en hvað getur menntamálaráðuneytið gert þarna? Vissulega getum við beint tilmælum og hvatningu til sveitarfélaganna um að huga sérstaklega að þessum hópi, en við getum líka aukið sveigjanleikann í regluverkinu sem slíku, veitt skólastjórnendum og kennurum heimild til að meta hvort þarfir einstakra nemenda eða ákveðins hóps séu þannig að námsefni og fleira nái ekki að uppfylla þær kröfur sem barnið gerir til námsins og að þau hafi þá tæki og tól til þess.

Við getum t.d. farið sömu leið og Danir varðandi samræmdu prófin. Þeir nýta núna sérstaklega tæknina varðandi samræmdu prófin, skilst mér, á þann hátt að samræmd próf verða einstaklingsmiðuð og hönnuð eftir getu hvers barns. Það er hægt að hafa létt próf og mjög þung próf. Reynt er að sigta út hópana og koma með þannig próf að þau komi til móts við þarfir þessara barna.

Á þessi atriði getum við í menntamálaráðuneytinu litið og við erum sérstaklega að skoða þau. Ég ítreka enn og aftur að ég tel að þar sem grunnskólar eru reknir á forsendum sveitarfélaganna og undir þeim lagaramma sem nú er eigi þeir að huga að þörfum allra barna alls staðar í skólakerfinu.