133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda – fyrirspurn um símhleranir.

[10:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á fundi félagsmálanefndar í gær var kynnt stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Þetta er á margan hátt vel unnin stefnumótun um markmið og leiðir til að aðlaga innflytjendur sem best að íslensku samfélagi en allt veltur þetta þó á framkvæmd stefnunnar og fjármögnun. Það sem þó vakti undrun mína og vonbrigði, og ég kalla eftir skýringu hæstv. félagsmálaráðherra á, var að upplýst var í nefndinni að ekki ætti að leggja stefnumótunina fyrir Alþingi til meðferðar og umfjöllunar. Því vil ég mótmæla harðlega að Alþingi fái ekki að fjalla um þetta stóra mál en auðvitað gæfi það málinu miklu meiri vigt ef það færi til þinglegrar meðferðar á löggjafarþinginu og þá gæti þingið eftir atvikum gert á því umbætur og breytingar eins og þurfa þykir.

Í svona stóru máli á Alþingi að vera aðili að allri stefnumótun og bera ábyrgð á hvernig hún er úr garði gerð. Þannig verður að ganga frá málum að þetta verði ekki bara pappírsplagg í skúffum ráðuneytanna heldur verði unnið eftir skipulögðu aðgerðaplani sem tryggi að hér á landi komumst við hjá vandamálum, undirboðum í kjörum, árekstrum og ýmiss konar sambúðarvanda milli fólks af ólíkum uppruna sem margar þjóðir hafa þurft að glíma við. Einnig vantar í þessa stefnumótun framkvæmdaáætlun sem félagsmálanefnd óskaði eftir síðasta vor að gerð yrði á grundvelli stefnumótunar en það var eitt af þeim skilyrðum sem sett var fyrir lagasetningu um frjálsa för launafólks og átti reyndar að leggja stefnumótunina fyrir Alþingi í upphafi þessa þings í haust ásamt framkvæmdaáætlun. Meðferð ráðherrans á málinu er allt önnur en um var rætt í vor.

Um þetta spyr ég ráðherrann og einnig, virðulegi forseti, að fram kom í félagsmálanefnd í gær að breyta þarf lögum, m.a. lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem leiðir af þessari stefnumótun og brýnt að þær lagabreytingar sem þarf að gera til að innflytjendur geti sem best aðlagast íslensku samfélagi komi sem fyrst fyrir Alþingi, m.a. að innflytjendaráð fái lagastoð sem mun gegna mikilvægu hlutverki í allri framkvæmd að stefnumótun. Ég spyr því ráðherrann um lagafrumvörp sem fylgja eiga þessari stefnumótun, hvort hann styðji ekki að Alþingi fjalli um stefnumótunina og hún verði tekin til þinglegrar meðferðar og hvort ráðherra muni ekki leggja fram framkvæmdaáætlun á grundvelli stefnumótunarinnar.