133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:35]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Innflytjendaráð hefur undanfarna mánuði unnið að mótun stefnu um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og skilaði um það tillögu í síðustu viku. Ríkisstjórnin hefur fjallað um málið og þau tímamót urðu sl. þriðjudag að ríkisstjórnin samþykkti þessa stefnumótun sem er í raun fyrsta stefnumótunin um þennan málaflokk sem gerð hefur verið heildstætt. Í gærmorgun var stefnumótunin kynnt fyrir félagsmálanefnd og í framhaldi af því var hún kynnt opinberlega.

Ég tel að um tímamótamál sé að ræða þar sem stefna ríkisstjórnarinnar liggur núna fyrir um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Ég fagna því sérstaklega og er viss um að hv. þingmenn eru mér sömu skoðunar í því efni.

Spurt er hvernig Alþingi komi að málinu. Ég mun í framhaldinu fara yfir það með samráðherrum mínum í ríkisstjórn hvernig við gerum það. Ég tel auðvitað eðlilegt að málið verði til umfjöllunar á Alþingi með einhverjum hætti, en ég mun sem sagt ræða það við samráðherra mína, það eru fleiri ráðuneyti sem koma að þessu máli, og við munum síðan í framhaldi af því taka ákvörðun um það.

Varðandi eftirfylgni stefnunnar, ég tek alveg undir með hv. þingmanni að auðvitað er mikilvægt að fylgja stefnumótun eftir og núna í framhaldinu verður farið í að útbúa framkvæmdaáætlun sem byggir á þessari stefnu. Ég vonast til þess að vinna við það gangi fljótt og vel þannig að við getum farið að vinna markvisst að þessum málum eins og uppleggið er og ég hygg að allir séu sammála um að þurfi að gera.