133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur verið unnið að stefnumótun um málefni innflytjenda og var grunnur að slíkri stefnumótun kynntur í félagsmálanefnd Alþingis í gær. Sá grunnur er prýðilegur en vantar að vísu allt kjöt á beinin, framkvæmdaáætlun. Okkur var sagt í félagsmálanefnd að þetta væri ekki trúnaðarmál en á það bæri að líta að stefnan væri enn í mótun. Síðan gerist það þegar menn koma út af fundi félagsmálanefndar að ríkisstjórnin er að kynna þetta málefni fyrir fjölmiðlum.

Ég vek athygli þingsins á því að nú er það að gerast sem iðulega hefur gerst fyrir alþingiskosningar að ráðherrar fara að breyta ráðuneytum sínum í kosningaskrifstofur fyrir eigin flokka. Nú taka þeir án afláts að skreyta sig með fjöðrum, kynna vinnu ýmissa starfshópa og þetta er dæmi um slíkt. (Gripið fram í: … ómerkilegt.) Þetta er ekki ómerkilegt. En það sem er ómerkilegt er að nú gerast ráðherrar mjög gjöfulir. Þeir lofa, en vel að merkja fram í tímann, fram á næsta kjörtímabil og jafnvel tvö kjörtímabil fram í tímann. Við erum að verða vitni að þessu varðandi aðgerðir í menntamálaráðuneytinu og við erum að verða vitni að þessu í öðrum ráðuneytum einnig.

Ég spyr: Er siðferðilega (Gripið fram í.) stætt á því að ráðherrar í ríkisstjórn komist upp með það að umbreyta ráðuneytum í kosningaskrifstofur? Þetta er dæmi um slíkt.