133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:46]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Af viðbrögðum nokkurra hv. þingmanna mætti ætla að þeir legðust gegn því að það skuli í fyrsta sinn hafa verið mótuð stefna af hálfu ríkisstjórnar um málefni innflytjenda. Það er með ólíkindum að menn skuli koma upp, fleiri en einn og fleiri en tveir, og lýsa yfir vonbrigðum og gefa því þær einkunnir sem hér hafa fallið, fljótaskrift, kosningamaskína og þar fram eftir götunum.

Hvað er hér á ferðinni? Hæstv. félagsmálaráðherra er að kynna niðurstöður þverfaglegrar nefndar sem hefur unnið að stefnumörkun um málefni innflytjenda í fyrsta sinn af hálfu ríkisstjórnar. Ég hefði haldið ekki síst eins og þróunin hefur verið síðustu missirin að það væri fagnaðarefni. Þá koma hv. þingmenn upp og láta þau orð falla sem við höfum orðið vitni að. (Gripið fram í: Hvaða orð?) Halda mætti að hér væri um einfalda afbrýðisemi að ræða í stað þess að fagna því að komin skuli vera þverfagleg stefna um málefni innflytjenda. Þá leyfir hv. þm. Ögmundur Jónasson sér að nota þau orð sem hann notaði áðan sem og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Ég tel að það sé þeim til skammar í stað þess að fagna því að nú skulum við sjá markvissa stefnu byggða á þverfaglegri vinnu nefndar um málefni innflytjenda. Hv. þingmaður (Gripið fram í: ... titringur.) (ÖJ: Maður gæti haldið að þú værir framsóknarmaður.) Nú háttar svo til að atgangur þessara hv. þingmanna er slíkur að ég fæ ekki að ljúka máli mínu. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja hv. þingmenn til þess að skoða þessa stefnu. Það var faglega unnið að henni hjá hæstv. ráðherra með þverfaglegri nefnd. Hann kynnti hana fyrir hv. félagsmálanefnd í gær áður en málið var gert opinbert. Í stað þess að koma upp í þessu fúllyndi ættu hv. þingmenn að fagna því að það skuli vera komin fagleg stefna um málefni innflytjenda sem er samfélagi okkar í hag, innflytjendum í hag og þinginu í hag.