133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:50]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stefnan lá fyrir Alþingi með einhverjum hætti sagði síðasti ræðumaður. Ég vil vekja á því athygli að það er grundvallarmunur á því hvort ráðherra flytji Alþingi skýrslu um stefnumótunina eða hvort Alþingi fái hana til þinglegrar meðferðar og til umfjöllunar. Geti eftir atvikum gert breytingar á þessu og greitt atkvæði um stefnumótunina vegna þess að það er mikilvægt að Alþingi beri ábyrgð á henni. Þetta er það stórt mál að það á að vera svo, enda þarf örugglega mikla fjármögnun til að framkvæma stefnumótunina og aðgerðaáætlun og að því kemur Alþingi líka.

Lögð er fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Hér er ekki síður á ferðinni stórt mál sem er stefnumótun í málefnum innflytjenda sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun og á auðvitað reglulega að flytja málið fyrir þingi. Í upphafi þegar slík stefnumótun er gerð á Alþingi að koma að því. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til að skoða það og leggja áherslu á það við samráðherra sína að Alþingi fái þessa stefnumótun til þinglegrar meðferðar og umfjöllunar. Ég hvet ráðherrann til þess að þetta verði lagt með formlegum hætti fyrir þingið. Það er farsælast í svo stóru og þýðingarmiklu máli, að Alþingi beri ábyrgð á þessu.

Samþætting og blöndun er mikilvæg og raunar lykilatriði. Það má ekki fara svo að hér búi margar þjóðir í einu og sama landinu. Blöndun þarf að vera í skólakerfinu, í búsetu- og húsnæðisúrræðum, á vinnumarkaðnum og í frístundum og það á að gegna lykilhlutverki í allri stefnumótun og framkvæmd. Alþingi verður að tryggja í stefnumótuninni að svo verði vegna þess að það er mikið í húfi fyrir íslenskt samfélag og fyrir innflytjendur sem hingað kjósa að koma, að stefnumótunin verði markviss og skýr, gerð verði aðgerðaáætlun í samræmi við hana og Alþingi fái að koma að henni.