133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að ef vilji væri til samstarfs um stefnumótun í málefnum innflytjenda af hálfu stjórnarþingmanna hefði verið farið öðruvísi að varðandi stefnu í málefnum innflytjenda en hér er gert. Þessi gjörð lýsir því auðvitað að það er enginn sérstakur vilji af ríkisstjórnarinnar hálfu til að ná um þetta breiðri sátt eða hleypa Alþingi að stefnumótuninni. Hverju lýsir það, hæstv. forseti? Að mínu mati lýsir það valdhroka og samkeppni um hylli vegna þess að kosningar eru að nálgast.

Núverandi ríkisstjórn veit alveg að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum látið okkur miklu skipta stefnumörkun í málefnum innflytjenda. Núverandi ríkisstjórn og hæstv. ráðherra þekkir öll þau þingmál sem hér hafa verið lögð fram. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hef ekki kynnt mér þetta plagg nema það sem sagt hefur verið í fjölmiðlum. Ekki veit ég hvort fjallað er um sjálfkrafa rétt útlendinga til atvinnuleyfis eða hvort fjallað er um réttindi erlendra kvenna sem flýja úr ofbeldisfullum samböndum, hvort þær fái undanþágu frá dvalarleyfistakmörkunum. Eða hvort fjallað er um 18 ára regluna um sjálfstæða framfærslu 18 ára unglinga eða hvort fjallað er um 66 ára regluna eða 24 ára regluna.

Um allar þær reglur sem ég nefndi þarf lagabreytingar og það þarf samstöðu á Alþingi til að gera þær. Ég sé því ekki annað en þessi gjörð ríkisstjórnarinnar lýsi því að kosningar eru í nánd. Slíka stefnumörkun hefði mátt sjá hjá Sjálfstæðisflokknum eða á vegum Framsóknarflokks í flokksstarfinu, en ef hér á að nást einhver sátt eða samkomulag um stefnu í málefnum innflytjenda þarf hún að fara í gegnum Alþingi Íslendinga. Annað er óvirðing ekki bara við okkur sem sitjum í skjóli þjóðarinnar heldur við þjóðina sjálfa.