133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

umræða um málefni útlendinga.

[11:06]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta að það er afar mikilvægt að sú stefnumótun sem rædd var í félagsmálanefnd í gær í málefnum innflytjenda fái hér þinglega meðferð. Ég óska hreinlega eftir liðsinni hæstv. forseta, eins og í hennar valdi stendur að fá stuðning við það að slík málsmeðferð verði viðhöfð á Alþingi. Annað er hrein lítilsvirðing við þingið, að svona stór stefnumótun komi ekki fyrir þingið og þingið fái ekki að fjalla um hana með eðlilegum hætti, gera athugasemdir, senda málið út til umsagnar og greiða um það atkvæði. Það eru fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu, virðulegi forseti, sem hafa skoðanir á þessu máli. Það er eðlilegt og lýðræðislegt að í umfjöllun Alþingis um slíka stefnumótun verði málið sent til umsagnar ýmissa aðila, ekki síst sveitarstjórnanna sem þessi stefnumótun og framkvæmd hennar mun ekki síst mæða á.

Ég minni forseta á að fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga frá þingmönnum Samfylkingarinnar um stefnumótun í málefnum innflytjenda því að við teljum eðlilegt að þingið fjalli um slíka stefnumótun, hafi á henni skoðun og beri á henni ábyrgð enda er fjármögnunin á allri framkvæmd í höndum Alþingis. Ég veit að allir flokkar á þingi hafa miklar skoðanir á þessu máli og vilja að stefnumótun sé þannig úr garði gerð að hún verði til farsældar fyrir íslenskt samfélag og þá innflytjendur sem hingað kjósa að koma. Þess vegna er ég sannfærð um það, virðulegi forseti, að þó að stutt lifi af þessu þingi muni þingflokkar leggja sig fram um það að þessi stefnumótun nái fram að ganga áður en þingi lýkur í vor. Ég á sæti í félagsmálanefnd, virðulegi forseti, og ég mun leggja mig fram við það, ef hæstv. ráðherra verður við þeirri ósk að leggja málið fram með formlegum og þinglegum hætti inn í þingið þannig að það fái málið til umfjöllunar, að meðferð málsins í félagsmálanefnd verði hraðað eftir því sem kostur er.

Því miður, virðulegi forseti, heyrist mér á máli bæði hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra að þeir ætli að láta sér nægja að flytja Alþingi bara skýrslu um þetta mál sem verður rædd í kannski einn eða tvo tíma ef best lætur en að öðru leyti hafi þingið engin afskipti af því. Það er alls óviðunandi, virðulegi forseti, ef niðurstaðan á að vera slík. Við vitum að á ferðinni er stórt mál sem skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag hvernig Alþingi og framkvæmdarvaldið halda á og ég mótmæli því, virðulegi forseti, ef Alþingi verður sýnd sú lítilsvirðing að það eigi að ganga fram hjá þinginu í að móta stefnu í þessu máli. Það bara gengur ekki, hæstv. forseti.