133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

umræða um málefni útlendinga.

[11:09]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég leyfi mér að fagna þessari umræðu um málefni innflytjenda. Ég tek undir það sem hér hefur fram komið að það er nauðsynlegt að ræða það sérstaklega á Alþingi, sérstaklega þá stefnumótun sem hæstv. félagsmálaráðherra var að leggja fram. Það er nauðsynlegt að málið fái þinglega meðferð og komi að sjálfsögðu fyrir í réttri nefnd og að þeir sem bæði áhuga hafa og rétt til að koma að þessu máli fái að gera það. Það gengur ekki að þetta sé einfaldlega rétt kynnt og svo búið. Það þarf að taka þetta málefni vel fyrir, það er hávær umræða í þjóðfélaginu um að menn ræði málefni innflytjenda og komi á stefnumótun. Það verður þá að vera gert með aðkomu Alþingis og allra stjórnmálaflokka.