133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að taka upp þetta mál. Mér heyrist á málflutningi hans og reyndar á málflutningi ýmissa annarra í þjóðfélaginu að ekki sé vanþörf á að ræða þau aðeins og átta okkur á hvað til stóð í upphafi og einnig á hvaða forsendum úrvinnsla þessara mála byggi.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það sem hv. þingmaður nefndi, að verið væri að gera kröfur í þinglýst landamerki, að samkvæmt úrskurðum Hæstaréttar Íslands eru þinglýst landamerki ekki ein og sér fullnaðarsönnun fyrir eignarrétti á landi, það þurfi önnur gögn að fylgja með eða þá að skoða þurfi hvert tilfelli fyrir sig til að meta það hvort þinglýsingarnar séu í rauninni í samræmi við rétt eignarhald. Þarna liggja fyrir margir dómar Hæstaréttar og kemur skýrt fram í greinargerðinni með þjóðlendufrumvarpinu frá 1998 að ekki standi til með þeirri lagasetningu að breyta þeim sönnunarfærslukröfum um eignarrétt sem í gildi séu í landinu heldur eigi við málflutning og úrskurð þessara deiluefna að beita almennum sönnunarfærslukröfum sem í gildi eru á hverjum og einum tíma í samræmi við lagahefðir íslensks réttar.

Það þýðir ekki að það sé endanleg niðurstaða að kröfur ríkisins innan þinglýstra eignarmarka verði allar samþykktar. Það þýðir hins vegar að Hæstiréttur er búinn að segja að óvissa er um þær og ríkinu, sem er þá að gæta hagsmuna alls almennings, þess sem hv. þingmaður telur að eigi hálendið, er skylt að gera kröfur þar sem um óvissu er að ræða til að óbyggðanefnd og eftir atvikum dómstólar geti úrskurðað um rétta niðurstöðu. Í því felst auðvitað svarið líka við því hvort ráðherrann sjái stjórnarskrárbrot í störfum óbyggðanefndar, það er ekki ráðherrans að meta það heldur fara þau mál sem eru deiluefni hjá óbyggðanefndinni til umfjöllunar hjá dómstólum og þá er það Hæstiréttur sem úrskurðar um það og eftir atvikum, ef menn teysta ekki úrskurði Hæstaréttar, geta menn farið með það fyrir Mannréttindadómstólinn.

Hv. þingmaður gerir líka mál úr því að lýst hafi verið kröfum í land lítt yfir sjávarmáli, eins og hann telji að það eigi bara að fjalla um hálendið, en í greinargerðinni með þjóðlendufrumvarpinu á sínum tíma er beinlínis talað um það og almenningar skýrðir þannig að þeir geti náð niður í fjöru. Hæstaréttardómar hafa gengið í málefnum í Skaftafellssýslu þar sem þjóðlendur eru úrskurðaðar niður í fjöru. Reykjanesið var tekið til úrskurðar af óbyggðanefnd og hverjum dettur til hugar að halda því fram að Reykjanesið sé hluti af miðhálendinu?

Þetta eru hlutir sem menn þurfa að átta sig á í umræðunni og hafa á hreinu og eru forsendur málsins. Reyndar er það þannig að þessi afstaða Hæstaréttar til sönnunarfærslu á eignarrétti á landi er ein af ástæðunum fyrir því að farið var út í allt þetta mál, að með þessu voru sett spurningarmerki við þinglýsingarnar frá 1882 til 1919 og margir dómar féllu á grundvelli þeirrar afstöðu réttarins og síðan reyndar þær kröfur sem voru uppi þegar verið var að fara yfir skipulag miðhálendisins um að hálendið ætti t.d. að vera eitt sveitarfélag og að nærliggjandi sveitarfélög og þeir sem ættu nærliggjandi land og hefðu nýtt afréttinn ættu ekki að hafa um það að segja. Þetta tvennt voru aðalforsendurnar fyrir því að hafa farið út í þetta mál til að tryggja og styrkja eignarréttinn.

Hins vegar hefur það komið fram hjá mér, ég lagði það til í ríkisstjórn, að á þessu stigi málsins væri farið yfir hvernig staðið væri að framkvæmdinni til að stytta þann tíma sem óvissa væri um niðurstöður þegar þinglýstar kröfur hafa verið gerðar á jarðir. Ég tek undir að það er mjög íþyngjandi fyrir bændur að vera með þinglýstar kröfur um langan tíma og hef þess vegna lagt til að rannsóknarvinnan sem óbyggðanefnd stendur fyrir, sjálfstæð rannsóknarvinna, geti hafist áður en ríkið lýsir kröfum sínum. Þá er tíminn styttri og meiri líkur til þess að kröfurnar sem ríkið gerir séu í meginatriðum eins og ætla má að (Forseti hringir.) úrskurðirnir verði.