133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:32]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál sem snertir hagsmuni fjölmargra aðila um land allt. (Gripið fram í.) Ég verð að segja að mér finnst menn fara svolítið um víðan völl og ýmist er verið að deila á kröfugerð ríkisins, niðurstöðu óbyggðanefndar eða jafnvel niðurstöðu Hæstaréttar. Ég veit ekki hvað það á í sjálfu sér að þýða að koma hingað og kvarta við fjármálaráðherrann yfir því hvernig Hæstiréttur fellir dóma sína vegna þess að það liggur auðvitað fyrir að sú lagasetning sem við erum að tala um nú hefur ekkert með efnisreglurnar sem snerta eignarrétt að gera, ekki neitt. (Gripið fram í.) Þetta eru formreglur um það hvernig við ætlum að leiða þessi mál til lykta.

Er ekki staðreyndin sú að þegar sett eru lög á Alþingi sem eiga að taka á mögulegum ágreiningi um hvar eignarmörk landa og jarða liggja þá liggur það í hlutarins eðli að þegar menn fara í framkvæmdina verður ágreiningur um það? Menn eiga því ekki að vera að koma hingað upp í ræðustól á Alþingi og býsnast yfir því að gerður sé ágreiningur um þessi atriði. Það lá fyrir frá upphafi að það yrði tekist á um þetta. Auðvitað er það fráleitt að menn komi hér upp og lýsi furðu sinni á því að í sumum tilfellum gangi kröfurnar í sjó fram og niður fyrir einhverjar ákveðnar hæðarlínur. Þetta lýsir bara fullkominni vanþekkingu á því út í hvaða vegferð menn voru að fara þegar lögin voru sett á sínum tíma.

Hafandi sagt þetta ætla ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að menn gangi hóflega fram í kröfugerð af hálfu ríkisvaldsins og ég held að með þeim hugmyndum sem fjármálaráðherrann hefur nú þegar kynnt til þess að undirbúa betur kröfugerð ríkisins áður en þeim er þinglýst á jarðirnar sé líklegt að meiri ró og friður skapist vegna þessara mála en verið hefur. Við þurfum einfaldlega að ganga þessa vegferð til enda og það þýðir ekkert að fara að breyta (Forseti hringir.) leikreglunum á miðri leið. (Gripið fram í.)