133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst þessi umræða bera það með sér að það er minni ágreiningur um málið en ætla mætti af ýmsu sem fram hefur komið.

Ég verð hins vegar að upplýsa hv. málshefjanda um það að í þessu máli er fjármálaráðherranum ætlað að gæta hagsmuna alls almennings. Hann á að koma þeim kröfum á framfæri við óbyggðanefnd um það hvar óvissa er um eignarrétt til þess að úr því fáist skorið hver eigi landið. Hæstiréttur hefur fellt þann dóm að krafan verði að koma fram í upphafi, það megi ekki bæta við hana síðar. Það gerir enn þá ríkari kröfur á fjármálaráðherrann að hann geri allar þær kröfur í upphafi sem til greina koma en ekkert sé undanskilið.

Þess vegna hef ég viljað breyta þessum farvegi þannig að það sé rannsakað fyrst áður en kröfurnar komi fram, því að það er óbyggðanefnd sem sjálfstæðum aðila, sjálfstæðum rannsakanda og sjálfstæðum úrskurðaraðila sem er ætlað það hlutverk. Þess vegna skiptir það máli að ríkið geti komið ábendingum til óbyggðanefndarinnar um hvað beri að rannsaka áður en kröfurnar komi fram til þess að kröfurnar verði síður að einhverra mati ósanngjarnar og meira að líkindum við niðurstöðuna og þurfi ekki að vera íþyngjandi gagnvart bændum með þinglýsingunum.

Það sem síðan markar sönnunarfærslubyrðina um eignarréttinn eru dómar Hæstaréttar. Ef við færum að reyna að breyta því í þessu máli þá værum við að breyta miklu meiru en við hefðum hugsað okkur í upphafi og hugsanlega væri þá ríkið með mesta eigna- og verðmætaafsal fyrir fram sem nokkru sinni hefði heyrst um.