133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:44]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Á undanförnum árum hefur samstarf eða sameining Kennaraháskólans og Háskóla Íslands verið til skoðunar og á árinu 2002 unnu skólarnir sameiginlega athugun á nánara samstarfi eða hugsanlegri sameiningu sem síðan hefur verið lögð til grundvallar m.a. í starfi nefndar sem ég skipaði í upphafi þessa árs með fulltrúum beggja skólanna til að skoða fýsileika sameiningar þeirra. Niðurstaða nefndarinnar sem síðan var kynnt í ríkisstjórn hinn 11. apríl sl. var á þá leið að sameining skólanna væri æskileg en sá fyrirvari var gerður að samstaða næðist milli skólanna um markmið sameiningarinnar.

Í skilagrein nefndarinnar eru í fyrsta lagi skilgreind þau meginmarkmið sem nefndin telur að stefna beri að í tengslum við sameiningu skólanna. Í öðru lagi eru tilgreind þau tækifæri og kostir sem nefndin telur að mikilvægt sé að nýta við sameininguna. Í þriðja lagi eru reifuð ýmis viðfangsefni og álitamál sem nefndin telur að sérstaklega þurfi að huga að verði ákvörðun tekin um sameiningu og í fjórða lagi setur nefndin fram niðurstöður sínar og þær forsendur og fyrirvara sem að þeim lúta. Nefndin telur að þau meginmarkmið sem stefna beri að með fyrirhugaðri sameiningu séu eftirfarandi:

1. Að stuðla að eflingu háskólamenntunar á Íslandi með sameiningu háskólastofnana sem verða með því sterkari heild sem byggir á sérstöðu og sérhæfingu þeirra beggja.

2. Að tryggja fjölbreyttara og sveigjanlegra námsframboð í grunn- og framhaldsnámi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum og annarra uppeldisstétta.

3. Að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt kennaranámi.

4. Að styrkja kennslu og rannsóknir í uppeldis- og menntunarfræðum og skapa forsendur fyrir samþættingu slíkra rannsókna við aðrar rannsóknir sem stundaðar eru í sameinuðum háskóla.

5. Að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk.

6. Að skapa forsendur fyrir því að sameinuð stofnun veiti menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða sem og annarra tengdra greina á Íslandi sem sé sambærileg við það sem best gerist í okkar nágrannalöndum.

Eftir að framangreind fýsileikaskýrsla lá fyrir, frú forseti, lýstu háskólaráð beggja skólanna vilja sínum til að haldið yrði áfram með málið. Í ágúst sl. skipaði ég starfshóp til að vinna frekar að undirbúningi sameiningarinnar og skilaði sú nefnd eða sá starfshópur skýrslu í nóvembermánuði. Geymir sú skýrsla sameiningaráætlun sem ætlað er að vinna eftir fáist samþykki Alþingis fyrir sameiningunni með frumvarpi þessu. Í sameiningaráætluninni sem er að finna á fylgiskjali I með frumvarpinu er lögð rík áhersla á eftirfarandi forsendur sameiningar:

1. Að náið samstarf og jafnræði sé milli háskólanna við undirbúning sameiningar og mótun hugmynda um fyrirkomulag uppeldisvísinda í sameinuðum háskóla.

2. Að starfsmenn beggja skóla haldi sambærilegum starfskjörum.

3. Að nemendur sem eru í námi við Kennaraháskóla Íslands eigi rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við sameiningu háskólanna.

Í samræmi við framangreint er við það miðað að skólarnir hefji sem fyrst sameiginlegan undirbúning að sameiningarferlinu og er frumvarp þetta lagt fram sem grundvallarforsenda fyrir því að hægt sé að ganga í þá vinnu. Auk frumvarpsins er fjallað sérstaklega um fyrirhugaða sameiningu í nýlega undirrituðum samningi ráðuneytisins og Háskóla Íslands sem er til næstu fimm ára.

Frumvarpið kveður á um sameiningu skólanna undir einu nafni, Háskóli Íslands. Það tryggir réttarstöðu nemenda og að auki réttarstöðu kennara og annarra starfsmanna Kennaraháskóla Íslands við sameininguna. Frumvarpið byggir sem sagt á því að sameiningin verði orðin að veruleika hinn 1. júlí 2008 og miðast gildistökudagur þess við þá dagsetningu. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Kennaraháskóla Íslands.

Svo ég renni stuttlega yfir einstakar greinar frumvarpsins þá gerir 1. gr. ráð fyrir sameiningu skólanna sem ég hef þegar fjallað ítarlega um. Í 2. gr. frumvarpsins eiga nemendur sem við gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum, eru í námi við Kennaraháskóla Íslands, eins og ég gat um áðan, rétt á að ljúka því námi við sameinaðan háskóla, Háskóla Íslands, samkvæmt því námsskipulagi sem er í gildi nú miðað við gildandi reglur um námsframvindu. Með því er tryggt að nemendur Kennaraháskólans eigi rétt á því að ljúka núverandi námi sínu við skólann samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er og á sömu forsendum. Þá er áréttað að réttur þessi sé bundinn í gildandi reglur um námsframvindu. Einungis er við það miðað að þessi réttur nái til náms við hinn nýja háskóla sem verður til við sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands.

Samkvæmt 3. gr. tekur sameinaður háskóli, Háskóli Íslands, samanber 1. gr. við eignum og skuldbindingum Kennaraháskólans frá gildistökudegi frumvarps þessa hinn 1. júlí 2008, verði það að lögum. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir á fjárlögum fyrir árið 2008 fyrir Kennaraháskóla Íslands. Frá sama tíma flytjast störf ótímabundið ráðinna kennara sem uppfylla skilyrði 18. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, og annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna Kennaraháskóla Íslands yfir til hins sameinaða háskóla, Háskóla Íslands. Með kennurum er átt við ótímabundið ráðna prófessora, dósenta og lektora við Kennaraháskóla Íslands sem hlotið hafa hæfnisdóm við ráðningu hjá Kennaraháskólanum í samræmi við skilyrði háskólalaga um menntun og árangur í starfi. Störf annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna flytjast jafnframt yfir til hins sameinaða háskóla, hvort sem þeir sinna kennslustörfum sem aðjunktar eða sérfræðingar, eða tilheyra stjórnsýslu skólans eða sinna öðrum störfum á vegum hans.

Sérstaklega er áréttað í 3. gr. 3. mgr. að um flutning allra framangreindra starfa fari að öðru leyti eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Þannig er á því byggt að við flutninginn haldi þessir starfsmenn öllum áunnum réttindum sínum svo sem biðlaunarétti, lífeyrisrétti og veikindarétti.

Í lokamálsgrein 3. gr. er síðan við það miðað að við gildistöku laganna verði embætti rektors Kennaraháskóla Íslands lagt niður. Um niðurlagningu embættisins gilda framangreind lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 4. gr. sem er lokagrein frumvarpsins er, eins og ég hef farið yfir hér að framan, gert ráð fyrir því að frumvarpið taki gildi 1. júlí 2008, þ.e. þegar sameiningin hefur gengið í gegn samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum en þær eru nokkuð umfangsmiklar og tímasetningarnar eru alveg skýrar. Þetta frumvarp er liður í tímasettri áætlun um það hvernig við viljum ná sameiningu þessara háskóla á sem farsælastan hátt í samvinnu og sátt við háskólasamfélagið og þá sem hlut eiga að máli.

Virðulegi forseti. Með framangreindri fýsileikaskýrslu, samrunaáætlun, endurnýjun samnings menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands, þessu frumvarpi og síðast en ekki síst með fullri samstöðu forustu og háskólaráða beggja skólanna um grundvöll, leiðir og markmið sameiningar tel ég að grunnur sé lagður að farsælu ferli við þetta mikilvæga verkefni sem ætlað er fyrst og fremst að efla og styrkja til muna menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða hér á landi og í alþjóðlegum samanburði. Þetta er mál sem að mínu mati hefur mikla þýðingu fyrir háskólasamfélagið og er brýnt og mikilvægt skref í þá átt að byggja upp Háskóla Íslands sem öflugan háskóla í fremstu röð.

Megintilgangur frumvarpsins hins vegar, frú forseti, er að efla kennaramenntun á Íslandi. Það er okkar leiðarljós við fyrirhugaða sameiningu háskólanna. Með sameiningu þessara tveggja háskóla opnast nýir möguleikar í þeim efnum með myndun sterkrar heildar er byggist á sérstöðu beggja skólanna. Markmiðið er að sameinuð stofnun bjóði kennaramenntun sem er sambærileg við það besta sem gerist erlendis.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.