133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[12:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er ávallt kjarnyrtur og kemur vel orði að hlutunum, mun betur en flestir aðrir í þingsalnum. Ég get heils hugar tekið undir sérstök lokaorð hv. þingmanns. Ég tel þau afar brýn og mikilvæg skilaboð frá Alþingi um að þetta er það sem við stefnum að að gera.

Ég get upplýst það að við erum þegar byrjuð að huga að því að lengja kennaramenntunina. En það þarf að gerast annars vegar í góðri samvinnu og sátt við kennarasamtökin, sem hafa lýst því yfir að er þeirra stefna, ég hef tekið undir það, en það þarf líka að ræða við sveitarfélögin. Sveitarfélögin verða að koma inn í þetta ferli m.a. út af hugsanlegum kostnaði sem kann að falla á sveitarfélögin við að lengja kennaranámið.

Við þurfum því að fara mjög gaumgæfilega yfir þetta. En það er ríkur vilji minn að stefna að því að lengja kennaranámið. Af hverju? Jú, við erum að gera það til að efla gæði menntunar, efla skólakerfið og þar erum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson sammála og erum við það nú ekki alltaf.