133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[12:01]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hér er mælt fyrir afar miklu og mikilvægu máli sem hefur haft töluverðan aðdraganda. Það er eðlilegt, frú forseti, í upphafi að óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með þann undirbúning sem átt hefur sér stað.

Eins og fram kom í andsvörum áðan er ólíku saman að jafna hvernig að þessu máli hefur verið staðið og máli því sem við erum nýbúin að ljúka umfjöllun um. Augljóst er að hæstv. ráðherra hefur keyrt hér mjög mikla sáttalínu sem er algerlega nauðsynleg við svo stórt verk sem þetta og ljóst að mjög margir hafa komið að málinu. Búið er að ræða málið töluvert mikið í báðum stofnunum og m.a. hafa háskólaráð beggja stofnana lagt blessun sína yfir það. Nefndir og starfshópar hafa starfað sem skipaðir hafa verið sameiginlegum fulltrúum frá stofnunum sem hafa lagt hönd á plóg. Ég sé ekki betur en hér liggi fyrir býsna vel unnið mál sem ég tel mjög jákvætt, bæði málið og vinnan.

Ég held að menntamálanefnd eigi samt fyrir höndum býsna mikla vinnu því málið er stórt sem slíkt. En ég trúi því að allir séu á svipuðum línum í þeim efnum að þetta sé æskileg sameining. Þetta muni styrkja kennaramenntunina, þetta muni styrkja hina nýju stofnun verulega við það að renna saman. En vissulega þarf að vanda sig við verkið. Það er ekki sama hvernig það er gert, eins og fram kemur í þeim gögnum sem við höfum fengið í greinargerðinni og sérstaklega í niðurstöðu þess starfshóps sem síðast starfaði og skilaði af sér í nóvembermánuði síðastliðnum. Þar er í rauninni farið yfir alla þætti málsins. Þar inni eru tímasetningar og aðgerðaráætlun. Verkefnaskipt er niður á hverjir bera ábyrgð á einstökum verkum. Þarna bíða því gífurlega mikil verk.

Frú forseti. Mér fannst skorta í ræðu hæstv. ráðherra það mikilvæga atriði sem er í raun forsenda málsins, þ.e. að algerlega klárt liggi fyrir að Háskóli Íslands fái annaðhvort með nýrri löggjöf um ríkisháskóla eða með breytingum á sérlögum um Háskóla Íslands heimild til þeirra skipulagsbreytinga sem þar hafa verið ræddar og í raun samþykktar á vettvangi háskólans, þó ekki sé búið að ganga endanlega frá því í hvaða mynd og formi það verður. En nauðsynlegt er að hæstv. ráðherra gefi um það alveg skýr skilaboð inn í umræðuna að hæstv. ráðherra sé á þeirri skoðun sem þar kemur fram og muni tryggja að það frumvarp komi fram sem nauðsynlegt er til að við getum klárað þetta mál, svo ekki fari á milli mála, frú forseti, að tryggt verði að fram komi frumvarp um að Háskóli Íslands, hin sameiginlega nýja stofnun, fái að setja á stofn marga skóla eins og þar er rætt um. Í stað deildaskiptingarinnar verði settir af stað margir skólar og að Kennaraháskólinn verði sem nánast meginkjarninn í einum þeirra. Þetta er ein af forsendum þess að málið allt nái fram að ganga. En eins og ég sagði áðan, frú forseti, saknaði ég þessa í ræðu hæstv. ráðherra og vona að úr því verði bætt á eftir.

Ég vil aðeins leyfa mér að fara yfir einstaka þætti vegna þess að okkar bíður gífurlega mikil vinna og afar mikilvægt að þeirri vönduðu vinnu sem fram hefur farið í málinu verði fram haldið á svipuðum nótum. Auðvitað eru einstaka þættir sem betur mættu fara, sýnist mér, og ýmislegt sem við þurfum að fara sérstaklega yfir.

Viðfangsefnið er afskaplega stórt og forsenda þess að þetta heppnist vel er að allir hlutaðeigandi leggist á eitt. Mér sýnist að í aðdragandanum hafi menn lagt sig verulega fram um að ná saman. Í báðum stofnununum hefur verið fjallað verulega um málið, að minnsta kosti í stjórnskipuðum þáttum þess, eins og háskólaráðunum. Það er reyndar spurning hvað þetta hefur farið langt niður til hinna einstöku starfsmanna og eins til nemenda skólanna, þó svo að fjallað hafi verið um þetta í stúdentaráði Háskóla Íslands og eins hjá nemendum í Kennaraháskólanum og alls staðar hafi þetta fengið jákvæða umfjöllun.

Einnig þarf að samræma framtíðarsýn skólanna beggja. Þeir hafa báðir nokkuð skýra framtíðarsýn og ég sé reyndar ekki að mikið misræmi sé á milli í þeim efnum en vissulega þarf að leggja sig fram um að láta það harmónera vel. Þá kemur að því sem ég nefndi áðan að Háskóli Íslands fái heimildir til að breyta stjórnskipulagi sínu á þann hátt að nokkrir skólar verði þar sem Kennaraháskólinn kæmi inn í þá vinnu sem allra, allra fyrst þannig að tryggt væri að sjónarmið beggja fengju að njóta sín.

Einnig þarf að vera ljóst með hvaða hætti sá styrkur sem skólarnir ráða yfir hvor í sínu lagi verði tryggður vegna þess að styrkurinn má ekki glatast, því vissulega er ákveðinn mismunur á þessum skólum. Þeir hafa þróast á mismunandi hátt, en það er afskaplega mikilvægt að styrkur þeirra verði tryggður í hinni sameiginlegu stofnun og ég held að þetta stjórnskipulag sem við töluðum um áðan, um einstaka skóla, sé liður í þeirri viðleitni.

Veikleikar hafa líka verið og þess vegna þarf að skilgreina þá líka og reyna að tryggja að á þeim verði tekið í sameiningunni svo tryggt sé að hinn nýi háskóli verði öflugri en skólarnir eru nú. Einnig er mikilvægt að í þessum samruna sé tryggt að allt starfsfólk sé með í ferlinu og reynt sé að tryggja að starfsandi verði sem allra bestur og stofnanamenningin sem hefur þróast mismunandi renni sem allra best í sameiginlegum farvegi.

Síðan er það alveg sérstakt mál að fara yfir fjármögnun háskólastigsins. Rétt er að nota tækifærið og fagna hinum nýja samningi sem gerður var nýlega við Háskóla Íslands og þar er komið að þeim þætti. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að gera einnig nýjan samning við Kennaraháskóla Íslands. Ef ég man rétt held ég að hann hafi runnið út líka um síðustu áramót eins og við Háskóla Íslands. Það er spurning hvernig þau mál standa, hvort tekið verði á því eða það brúað yfir í sameininguna á einhvern hátt.

Í frumvarpinu kemur fram að tryggja skuli að allir starfsmenn haldi réttindum sínum. Það er afskaplega mikilvægt að ekki sé verið að hrófla neitt við því í svo viðkvæmu ferli og fagnaðarefni að nú sé tekið algerlega af skarið með það. En það hefur ekki alltaf verið þegar menn hafa verið í störfum sem þessum.

Það vakti þó athygli mína að fram kemur í greinargerðinni, eða líklega er það í niðurstöðu starfshópsins sem skilaði af sér í lok síðasta árs, að fara þurfi betur yfir biðlaunaréttindi starfsmanna við Kennaraháskóla Íslands. Það er af þeirri einföldu ástæðu að miðað við texta frumvarpsins rennur Kennaraháskólinn í raun inn í Háskóla Íslands eða verður hluti af honum. Fara þarf nákvæmlega yfir það og ég saknaði þess að ekki lægi fyrir hvernig þau mál standa. Þegar kostnaður er metinn við þetta skortir algerlega þann þátt inn í, því svo virðist sem þeirri vinnu sé ekki lokið og vekur undrun því einhver dæmi eru um svipaða hluti, kannski eru þau ekki nákvæmlega eins. Töluverður munur var á því þegar Tækniháskólinn rann saman við Háskólann í Reykjavík því það var sitt hvort rekstrarformið. Í þessu er hins vegar algerlega um sams konar rekstrarform að ræða. Það var líka örlítið annað ferli þegar ýmsir skólar sameinuðust Kennaraháskóla Íslands fyrir nokkrum árum. Þá var um mismunandi skólastig að ræða, það eru því kannski ekki alveg sambærilegir hlutir. En nauðsynlegt er að yfir þetta verði farið og tekinn af allur vafi í þeim efnum.

Kjaramál starfsmanna við háskóla eru auðvitað á margan hátt flókin en mér sýnist á því yfirliti sem fram kemur í vinnu starfshópsins að þar sé ekki óbrúanlegur munur. Ákveðinn mismunur á sér þar stað en það er ekki þannig að það ætti að valda miklum vandræðum í samræmingu.

Einnig er rétt að fram komi, eins og kom fram í andsvari hæstv. ráðherra, að auðvitað mun þessi samruni auka mjög á möguleika nemenda til að gera nám sitt fjölbreyttara. Það er eðlilegt að horfa til þess að ekki er annað að sjá en að þessi samruni falli gífurlega vel að þeim hugmyndum og þeirri stefnumörkun sem samþykkt hefur verið í Kennaraháskólanum um breytingu á kennaranámi. Það falli algerlega að þessu og auðveldi þá breytingu alla. Þar er að hluta til lenging kennaranámsins og sú breyting sem menn gera ráð fyrir að nemar séu ekki eins bundnir af fyrir fram ákveðnum kúrsum heldur hafi mun meiri möguleika á að gera breiddina meiri.

Þó er eðlilegt að velta fyrir sér ákveðnum þáttum í þessu samhengi sem tengist sérstaklega greinum sem ekki eru kenndar í Háskóla Íslands. Það er hluti af vanda, getum við kannski sagt, skólakerfis okkar, þ.e. í sambandi við list- og verkgreinar, því ekki eru sambærilegar greinar kenndar í Háskóla Íslands og í Kennaraháskólanum. Það er sérstakt athugunarefni sem við hljótum að skoða nánar í nefndarstarfinu, þ.e. hvernig það verði tryggt að ekki muni draga úr mikilvægi þeirra greina og kannski miklu frekar velta fyrir sér hvernig auka má vægi þeirra. Slík kennsla er ekki til staðar í Háskóla Íslands heldur í öðrum stofnunum og hefur Kennaraháskólinn haft þá sérstöðu að undirbúa kennara undir störf á leik- og grunnskólastigi þar sem slíkar greinar skipta gífurlega miklu máli.

Stór þáttur í þessu sem ég tek eftir að skilinn er eftir, og kannski eðlilega, af þeim starfshópi sem skilaði af sér í lok síðasta árs er gífurlega flókið mál en er hluti af því sem þarf sérstaklega að fara yfir og það eru húsnæðismálin. Það er lykilspurning fyrst hvort æskilegt sé að hin nýja háskólastofnun, Háskóli Íslands endurnýjaður, verði sem allra mest, eins og ég geri ráð fyrir að flestir vilji, á sama stað, þ.e. í Vatnsmýrinni. Þá þarf að velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að gera það í þessu ferli, þessu sameiningarferli eða hvort það eigi að bíða og hvernig húsnæðismál verða þá leyst.

Þetta er auðvitað, eins og ég sagði, afskaplega flókið mál og stórt. En ekki liggja fyrir, miðað við þær upplýsingar sem koma fram í greinargerð, áætlaður kostnaður við byggingar eða hugsanlegt söluverð þeirra eigna sem nú eru til staðar hjá Kennaraháskólanum og því dýrmæta byggingarsvæði sem þar fylgir. Þetta eru þættir sem þarf að fara verulega vel yfir og nauðsynlegt er að settur verði niður hópur og þetta skoðað í náinni samvinnu stjórnvalda og háskólaráða beggja skóla. En þetta er þáttur sem kallar á töluvert mikla vinnu.

Við megum ekki gleyma hlut stúdentanna í þessu. Það er eðlilegt að þeir komi nokkuð við sögu. Það er augljóst mál að samtök þeirra og stúdentarnir þurfa að taka virkan þátt í þessu ferli þannig að viðhorf þeirra njóti sín því það er á margan hátt annað en þeirra sem starfa í stofnununum. Þeir hafa nefnilega gleggra auga fyrir ýmsu öðru.

Eins og kemur fram í vinnu starfshópsins eru ýmsir þættir sem þarf að fara yfir hjá stúdentunum, í samtökum þeirra, því uppbygging þeirra er ekki algerlega eins. Því er nauðsynlegt að þau komi að verki og reyni sem allra mest að vinna þar samhliða umræddu ferli þannig að það liggi nú ekki eftir.

Frú forseti. Ég hef hér stiklað á stóru og hefði viljað koma miklu víðar við í þessu viðamikla máli en mér sýnist tími minn vera að renna út. Menntamálanefnd mun greinilega ekki búa við verkefnaskort á næstu vikum þar sem hvert stórmálið af öðru kemur þar inn. Þetta er sýnilega víðs fjarri því að vera það minnsta, jafnvel það stærsta, að vísu er ekki minna mál, fjölmiðlamálið, sem bíður umfjöllunar í nefndinni. En greinilegt er að þar verður að láta hendur standa fram úr ermum ef á að ná utan um öll þessi stóru mál.

Það sem ég ætla þá að víkja að er ansi stór þáttur, þ.e. fjármálin eða kostnaðurinn við þessa hluti. Þar virðast því miður margir endar vera lausir. Það vekur sérstaka athygli að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur ekki farið verulega ofan í saumana á málinu og byggir raunverulega umsögn sína á vinnu þess starfshóps sem ég hef nokkrum sinnum nefnt hér, sem fór yfir þessa þætti líka. En eðlilega lauk hópurinn þeirri vinnu ekki að fullu heldur nefnir eingöngu tölur í þáttum sem eru nokkuð ljósir. En fjárlagaskrifstofan virðist eingöngu taka þá tölu sem útreiknuð er af ljósum kostnaði og kemst að þeirri niðurstöðu, eins og segir, með leyfi forseta:

„Tímabundinn kostnaður við sameininguna má áætla að verði 16 millj. kr. á árinu 2007 og 14 millj. kr. á árinu 2008, eða um það bil 30 millj. kr. samtals sem rúmast innan fjárheimilda menntamálaráðuneytis. “

Ég held, frú forseti, að ef takast á vel í þessu máli hljóti að þurfa að leggja til hærri fjárhæðir en hér koma fram og að sérstaklega verði að áætla til þess en það verði ekki nýtt af fjárheimildum menntamálaráðuneytisins. Ég trúi því að hæstv. ráðherra sé sammála mér í þeim efnum að eitthvað meira þurfi að koma til en eingöngu þær upphæðir sem þarna eru nefndar. Enda sést það þegar farið er yfir kafla starfshópsins um kostnað að þeir þættir sem fjárlagaskrifstofan tekur til eru raunverulega bara hluti af því sem mun að sjálfsögðu falla til. Þetta er beinn eða óbeinn kostnaður við vinnuna í þessu sambandi þar sem hópurinn áætlar að séu 12 til 15 millj. kr. Það er úttekt á sameiningarferlinu sem þeir gera ráð fyrir að kosti 34 millj. kr. og síðan að ráðinn verði sérstakur verkefnastjóri til að sinna þessu sameiningarferli og það muni verða um 12 millj. kr. Þetta er samtals nokkurn veginn sú upphæð sem fjárlagaskrifstofan nefnir.

En það er ýmislegt fleira sem nefnt er í skýrslu starfshópsins en ég nefni bara nokkur atriði. Það er t.d. að sameinuðum skóla verði skipt upp í skóla. Ekkert liggur fyrir um kostnað við slíkar breytingar á stjórnsýslu sameinaðs háskóla en til þess þurfum við að áætla töluvert af peningum því það er forsendan eins og ég hef komið að nokkrum sinnum.

Það er stoðþjónustan. Fyrir liggur að hugsanlega má spara þar eitthvað en ekki er búið að kanna það nægilega til að átta sig á hvort sá sparnaður vinnur upp hugsanlegan aukakostnað sem kallað er á. Ég hef minnst áður á kjarasamninga og stofnanasamninga sem eru til staðar. Fara þarf betur yfir það og óljóst hversu mikill kostnaður er þar á ferðinni í sambandi við þá samræmingu sem nauðsynleg er. Ljóst er að biðlaunaréttur getur myndast hjá einhverjum starfsmönnum í Kennaraháskólanum. Ekki er heldur búið að fara yfir það og meta hvaða kostnaður er þar hugsanlega á ferðinni.

Ég nefndi áðan stóra málið, þ.e. húsnæðismálin. Þar á algerlega eftir að fara yfir og móta tillögur. Fyrst er að taka ákvörðun um hvort starfsemin verði áfram á Rauðarárholti eða hvort stefnt verði að því að þetta fari allt saman í Vatnsmýrina. En þar er töluverð vinna sem bíður og töluverður kostnaður væntanlega, hvort sem gert verður, því ella verður að gera áætlun um viðbótarhúsnæði.

En þetta tengist að stórum hluta því hvenær og hvernig hinum nýja háskóla verði skipt upp í skóla. Þar skipta tímasetningar miklu máli. Ég verð að segja, frú forseti, af því tími minn er algerlega að renna út, að mér sýnast allar tímasetningar, ég vil að það komi fram í lokin, sem starfshópurinn hefur sett upp og það ákvæði að þetta taki gildi 1. júlí 2008 eigi allt saman að geta gengið upp ef vinnubrögð verða jafnvönduð og þau hafa verið fram að þessu.

Ég vona að sjálfsögðu, frú forseti, að vinnan í menntamálanefnd verði með svipuðu sniði og verið hefur við vinnslu frumvarps þessa. Ég vænti þess að hv. formaður menntamálanefndar, sem á mál mitt hlýðir, geri ráð fyrir að við munum sinna þessu máli með sama krafti og gert hefur verið fram að þessu svo tryggja megi að farvegurinn verði slíkur að gildistakan verði 1. júlí árið 2008.