133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[12:22]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands geti að mörgu leyti verið góður kostur sé vel á málum haldið. Það er hægt að lesa út úr þeim greinargerðum sem með frumvarpinu fylgja að það er búið að vinna þetta mál býsna ítarlega í skólasamfélaginu. Rektor Kennaraháskóla Íslands hreyfði þessari hugmynd fyrir nokkrum missirum og rektor Háskóla Íslands einnig, Páll Skúlason, í útskriftarræðu fyrir fjórum til fimm árum, talaði þá fyrir því að Háskóli Íslands yrði einhvers konar regnhlíf yfir svo til alla, eða alla opinbera háskólastarfsemi í landinu. Umræður um sameiningu á háskólastiginu hafa lengi verið að gerjast og þróast. Vonandi ná þær að lokum þannig fram að ganga að um verði að ræða töluverða eflingu háskólastigsins og í þessu tilfelli til að styrkja menntun kennara verulega, endurskoða þá menntun og styrkja með ýmsum hætti. Auðvitað er engin ástæða til annars en að ætla að svo verði. Fram að þessu hefur, eins og kunnugt er, grunndeild Kennaraháskóla Íslands boðið upp á 90 eininga B.Ed.-nám til grunnskólakennara, íþróttafræðinga, leikskólakennara, tómstundafræðinga og þroskaþjálfa og jafnframt því í grunndeild 15 og 30 eininga kennsluréttindanám fyrir þá sem hafa lokið prófi í faggrein, sem sagt meistaraprófi í iðngrein og háskólaprófi í sérgrein. Það er mjög mikilvægur þáttur kennaramenntunarinnar, ekki síður en þessi formlegi sem ber að varðveita og halda vel utan um, verði af þessari sameiningu, að þeir sem hafi slíka menntun eigi greiða leið inn í kennaranám af því að við þekkjum hvernig inntökumálum hefur verið háttað í Háskóla Íslands.

Um nokkurra ára bil hefur verið rætt um að lengja og styrkja kennaranámið verulega og hér gefst til þess góður kostur. Við höfum kallað eftir því í fyrirspurnatíma nokkrum sinnum að umræðan um sameiningu skólanna fari fram. Í fyrravor var Tækniháskóli Íslands lagður niður og sameinaður Háskólanum í Reykjavík. Þá beittum við okkur, mörg í stjórnarandstöðunni, töluvert fyrir því að það yrði ekki gert nema að undangengnu ítarlegu mati á kostum og göllum sameininga á háskólastiginu almennt. Af hverju var t.d. ekki skoðað að sameina Tækniháskólann á þeim tíma Háskóla Íslands og þá núna Kennaraháskólanum? Sú umræða fór aldrei fram og það er ámælisvert. Það er ekki ásættanlegt að taka svona menntapólitísk skref í einhverjum hænufetum án samhengis og við kölluðum mjög eftir heilsteyptri umræðu. Þá var t.d. tekið nám í tæknifræðum sem er ekki kennt núna í neinum opinberum háskóla heldur er einungis aðgengilegt í einkareknum háskóla gegn skólagjöldum. Það var ekki skoðað að setja það inn í Háskóla Íslands svo að það væri þá aðgengilegt þar sem grunnnám gegn sömu skilmálum og annað grunnnám á háskólastigi í landinu.

Þessa umræðu ber að taka heildstætt og í samræmi við stöðu háskólanna allra og háskólamenntunar í landinu almennt. Eins og ég segi, að sjálfsögðu getur verið góður kostur að sameina þessa skóla eins og aðra en þá þurfum við líka að búa svo um hnúta að t.d. sú starfsemi Kennaraháskólans sem fer fram á Laugarvatni — þar er Íþróttakennaraskólinn gamli, ég heimsótti hann einmitt núna í nóvember. Það var mjög gaman að koma í þann skóla, þar er búið að byggja upp þróttmikinn og metnaðarfullan hluta af Kennaraháskóla Íslands — sé t.d. ekki til óhagræðis fyrir Kennaraháskóla Íslands. Starfsemin gæti verið öll staðsett á sama stað í Reykjavík. Það þarf að aka kennurum og ýmsu öðru starfsfólki á milli o.s.frv. og sumum kann að þykja það verra. Ég held hins vegar að það væri mikið óráð og óðagot að láta sér detta í hug að slá eitthvað af starfseminni á Laugarvatni. Henni er þar ágætlega fyrir komið og við eigum að dreifa háskólamenntun skynsamlega um landið. Þessa þætti þarf að ræða og fyrir því þarf að fást trygging að við þessu verði ekki hróflað, námið heldur eflt ef eitthvað er, þegar það kemur inn í svona miklu stærra samhengi og miklu stærri skóla eftir sameininguna við Háskóla Íslands. Þá er nándin ekki eins mikil og umhverfið allt annað.

Ætli háskólarnir í landinu séu ekki með einum eða öðrum hætti átta núna, að ég held, og sú þróun hefur verið mjög jákvæð. Háskólar hafa sprottið upp og náð fótfestu, landbúnaðarskólarnir orðið að háskólum o.s.frv., en svo kemur sjálfsagt sá tími þegar skólarnir fara aftur að sameinast að einhverjum hluta, bæði út af hagkvæmni og hagræði og eins því að það gefur augaleið að kannski er ekki heppilegt fyrir 300 þúsund manna þjóð að halda úti mjög mörgum háskólum. Það er hætt við að það komi þá að einhverju leyti niður á námi og starfsemi skólanna. Sú þróun og gróska sem hefur verið í háskólastarfseminni að því leyti að þeim hefur fjölgað verulega má heldur ekki koma niður á fjárframlögum til skólanna. Mér telst til að fjárframlög á nemanda á háskólastigi nú séu lægri en þau voru 1999, fyrir átta árum. Háskólunum hefur vissulega fjölgað töluvert mikið úti um allan hinn vestræna heim, og fólk sem áður stundaði ekki lengri formlega skólagöngu en grunnskóla og iðnskóla er nú farið að fara aftur í skólana. Það er að verða viðteknara að ungmenni og stúdentar stundi lengra nám þannig að við þurfum að gæta sérstaklega vel að því að við gefum ekkert eftir á háskólastiginu. Það er ekki nóg að sameina og steypa saman stofnunum til þess eins að hagræða og spara peninga.

Tilgangurinn með þessu frumvarpi á að vera fyrst og fremst menntapólitískur, að efla og bæta menntun í landinu, kennaramenntun hér, og að sjálfsögðu aðgengi annarra námsmanna og stúdenta við Háskóla Íslands að kennsluréttindafræðum og kennaramenntun hvers konar. Það á að vera hinn pólitíski tilgangur, ekki hagræði og hagkvæmni eingöngu þó svo að það sé að sjálfsögðu ágætt ef það næst um leið. Þegar við horfðum t.d. fram á að til stóð að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár með talsverðum tilfæringum stóð í rauninni ekkert annað eftir þegar búið var að fara ofan í málið en að það var verið að spara peninga. Það var verið að spara fjármagn við uppbyggingu framhaldsskólastigsins, mæta stærstu árgöngum Íslandssögunnar með því að skera niður nám og spara enda varð sú stytting sem betur fer að engu. Þeim málum er miklu betur fyrir komið með öðrum hætti, við höfum rætt það áður og ræðum það sjálfsagt síðar en það mál kom aldrei fram þó að það væri þríboðað á þessu kjörtímabili, ef talin eru með lok á ferli Tómasar Inga Olrichs sem menntamálaráðherra, en málið kom aldrei fram og kemur vonandi aldrei fram í þeirri mynd.

Sameining er ágætur kostur ef markmiðið er það sem ég gat um áðan, að efla sérstaklega háskólamenntun í landinu. Það getur gefist vel eins og við sáum eftir að Landbúnaðarháskóli Íslands varð til og nokkrar menntastofnanir sameinuðust, m.a. Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum í Ölfusi. Síðan hefur verið linnulaus umræða um að leggja skólastarfsemina í Hveragerði niður til þess að þurfa ekki að byggja upp í Hveragerði, af því að sá skóli er í handónýtu húsnæði, og til þess að ná fram meira hagræði og hagkvæmni og byggja allt á sama stað. Auðvitað er það sjónarmið út af fyrir sig en það væri vítavert pólitískt athæfi að leggja niður menntun þar sem hún hefur verið um áratuga skeið í hjarta garðyrkjunnar í Hveragerði þar sem námið hefur skotið rótum og þróast og, eins og ég segi, það er líka byggðapólitískt og menntapólitískt markmið að auka aðgengi að námi með því að háskólastarfsemi sé víðar um land en bara á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf að gæta að mörgu, sameining er ekki sjálfsagður hlutur. Henni þurfa að fylgja loforð og síðar efndir um að það bitni ekki á einhverjum hluta starfseminnar eins og t.d. fyrrnefnd starfsemi Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni. Það verður að koma fram pólitískt loforð um að henni verði haldið úti áfram. Það hefur verið vilji til þess hjá sumum innan Kennaraháskólans að leggja menntunina á Laugarvatni niður og færa hana til Reykjavíkur sem eru sjálfsögð rök hjá stjórnendum og þeim sem reka viðkomandi menntastofnun en það á að vera skýr pólitískur vilji fyrir því hjá menntamálayfirvöldum og okkur hér á Alþingi Íslendinga, ef við samþykkjum þessi lög, að ekki verði hróflað við náminu á Laugarvatni. Þess vegna segi ég að sameiningin er ekki sjálfsagt mál þó að sameining geti verið góður kostur að öllum skilyrðum uppfylltum, þeim skilyrðum að nám í Kennaraháskólanum sérstaklega og íþróttakennaranámið á Laugarvatni verði ekki flutt til eða við því hróflað með neinum hætti, að skólarnir verði efldir, að fjárframlög til skólanna komi til með að aukast.

Við vitum að starfsemi opinberu háskólanna hefur verið á einhvers konar neyðarsvæði að mörgu leyti þar sem t.d. úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi þeirra leiddi í ljós að skólarnir hafa búið við mjög kröpp kjör í mörg ár og, eins og ég segi, framlög á nemanda á háskólastiginu öllu eru lægri nú en þau voru árið 1999. Það er mjög athyglisvert og á sér að sjálfsögðu að hluta þá skýringu að nemendum hefur fjölgað en einnig þá að ríkisvaldið hefur ekki sett aukna peninga í þennan þátt menntakerfisins enda erum við mjög neðarlega á lista OECD yfir framlög til háskóla og framhaldsnámsmenntunar meðan við erum hvað efst á listanum, í öðru eða þriðja sæti, eitthvað svoleiðis, yfir þær þjóðir sem leggja fjármagn í grunnskólann og leikskólann. Það er mikill munur á fjárfestingum okkar í þeim skólastigum sem sveitarfélagið rekur annars vegar, þeim tveimur hinum fyrstu, og síðan þeim tveimur skólastigum sem ríkisvaldið sinnir, framhaldsskólanum og háskólanum, þar sem allt annað hefur verið upp á teningnum.

Þess vegna þarf að ræða þetta. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom inn á stjórnskipulagið áðan. Þó að hæstv. ráðherra kæmi lítið sem ekkert inn á það í sinni ræðu er þetta gert í því samhengi að stjórnskipulagi í Háskóla Íslands verði gjörbreytt og það verði í rauninni átta sjálfstæðar einingar. Þetta þarfnast miklu ítarlegri skýringa af hálfu hæstv. ráðherra og miklu vandaðri yfirferðar í þinginu. Sjálfsagt er einnig að varpa þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvort eitthvað hafi verið rætt eða skoðað með breytingar á rekstrarformi Háskóla Íslands frá því sem nú er. Nú er mikil pólitísk tíska hjá ríkisstjórninni og ríkisvaldinu að breyta rekstrarformum opinberra stofnana af ýmsu tagi, núna síðast Ríkisútvarpsins, Matíss o.s.frv.

Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að Háskóla Íslands verði breytt í sjálfseignarstofnun til að efla enn þá frekar sjálfstæði skólans. Þessi hugmynd hefur komið innan úr háskólanum sjálfum. Við höfum svo sem aldrei rætt það neitt sérstaklega hér í þinginu af því að í þessari breytingu, þessari sameiningu á námsskipan Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, er sjálfsagt að ræða almennara um háskólaumhverfið og lagaumhverfi íslenskra háskóla aðeins inn í framtíðina. Eins og ég segi, sameining er aldrei sjálfsögð. Við deildum hart um það hér í fyrra þegar Tækniháskóli Íslands var lagður niður eða lagður saman við Háskólann í Reykjavík með því móti sem þar var gert, að tækninámið er ekki lengur til staðar í opinberum háskóla gegn þeim forsendum sem opinbert nám sætir sem eru innritunargjöld upp á 45 þúsund. Í staðinn stendur námið bara til boða í sjálfstætt starfandi, einkareknum — eða hvert er rétta orðið yfir það? — háskóla sem innheimtir talsvert hærri skólagjöld. Það er spurning um jafnræðið. Þess vegna og í þeirri umræðu kölluðum við mjög eftir því í Samfylkingunni að við ræddum fyrst almennt um hvaða kostir væru til sameiningar, hvort ekki væri álitlegra ef sameina ætti háskóla að sameina þá opinberu skólana, Tækniháskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, í sama skólann o.s.frv. Við fengum enga umræðu um það, það var búið að taka pólitíska ákvörðun um að Tækniháskóli Íslands rynni inn í Háskólann í Reykjavík og það er búið og gert.

Nú kemur þessi tillaga fram og málatilbúnaður um hana er að mörgu leyti ágætur. Þessi umræða hefur, eins og ég sagði, farið fram í skólunum, rektorar háskólanna beggja hafa hreyft þessum hugmyndum og talað um Háskóla Íslands sem regnhlíf yfir alla opinbera háskólastarfsemi í landinu. Mér finnst það að mörgu leyti ágæt hugmynd þegar fram í sækir og í því er fólgin heilmikil dínamík líka fyrir t.d. skóla eins og Háskólann á Hólum í Hjaltadal að vera sjálfstætt starfandi eining.

Eitt vildi ég nefna í leiðinni fyrst við erum að ræða um sameiningu háskóla og háskólamenntun í landinu. Það er fráleitt fyrirkomulag að tiltekinn hluti háskólamenntunar í landinu heyri undir landbúnaðarráðherra og restin undir menntamálaráðherra, sé einhver mínímenntamálaráðherra í líki landbúnaðarráðherra þar sem allt önnur fagleg þekking er á menntun og rekstri menntunar og það sé tekið úr samhengi við aðra menntun og aðrar menntastofnanir í landinu. Þess vegna skora ég á hæstv. menntamálaráðherra að taka það upp í ríkisstjórn að öll menntastarfsemi í landinu og þessir háskólar heyri undir menntamálaráðuneytið nú og um alla framtíð. Það er alveg eins og iðnaðarráðherra hefði með að gera iðnskólarekstur o.s.frv. Það var svona í gamla daga að fagskólarnir dreifðust á fagráðuneytin sem höfðu umsjón með þeim. Það er úrelt fyrirkomulag, og það er úrelt fyrirkomulag að landbúnaðarráðuneytið hafi með rekstur, núna tveggja, háskóla að gera og restin af menntakerfinu heyri undir menntamálaráðuneyti þar sem það á að sjálfsögðu að vera. Þetta er eins og að menntamálaráðherra færi að vasast með einhverja anga í landbúnaðarkerfinu, einfaldlega fáránlegt stjórnsýslufyrirkomulag.

Það er sjálfsagt að ræða það á sem breiðustum grunni hvaða opinberu háskóla hentugast er að reka saman. Hér er stigið ákveðið skref í þá átt og það er sjálfsagt að mæta því með opnum en gagnrýnum huga. Hér er staðið ágætlega að verki og við munum að sjálfsögðu fjalla ítarlega um málið í menntamálanefnd og sjá síðan til hvað um það verður. Það er a.m.k. ágætisumræðugrundvöllur fyrir skólapólitískum ákvörðunum stjórnvalda og skólapólitískri stefnumótun stjórnmálaflokkanna, núna í aðdraganda kosninga, að ræða mál sem þetta.