133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[13:54]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál, mikilvæga hagsmunamál fyrir menntakerfið og fyrir háskólasamfélagið en ekki síst fyrir þær sakir að við erum öll að huga að því hvernig megi bæta og efla skólakerfið og í þessu tilviki að mínu mati að styðja við það menntapólitíska verkefni sem fyrst og fremst felst í þessu frumvarpi, þ.e. að efla og bæta og styrkja enn frekar kennaramenntun í landinu. Eins og ég hef þegar getið um þá var leiðarljósið við sameiningu þessara háskóla fyrst og fremst markmiðið að efla kennaramenntunina í landinu. Þess vegna segi ég að að mínu mati er það alveg hreint og klárt að þetta frumvarp er einn liður í því að efla kennaramenntunina og ég er þeirrar skoðunar að við eigum að lengja kennaramenntun enda skipaði ég starfshóp sem var falið það hlutverk að huga að kennaramenntun til framtíðar í landinu. Sá hópur skilaði niðurstöðum á síðasta ári og við erum að skoða þær tillögur sem þar eru.

Ég tel líka mikilvægt í því efni að leita samráðs við sveitarfélögin. Ég held að það sé hluti af þeirri vinnu og þeim undirbúningi sem felst í því að stuðla að lengri kennaramenntun að fá sveitarfélögin líka að borðinu, a.m.k. að þau fái enn frekari kost á því að tjá sig um framkvæmdina. Ég vil líka geta þess að einn nefndarmaður í fyrrnefndum hópi var frá sveitarfélögunum, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þannig að það má í rauninni segja að í meginprinsippinu taki sveitarfélögin undir það markmið að lengja kennaramenntunina sem mér finnst í sjálfu sér fagnaðarefni.

Ég tel þetta því vera einn lið í því að efla kennaramenntunina og efling kennaramenntunarinnar getur falið margt í sér, hluti af því er að lengja hana en það er ekki verið að lengja hana bara til þess að lengja hana, við verðum líka að huga að því hvaða aðferðum við viljum beita til þess. Erum við t.d. að tala um frekara starfsnám úti á vettvangi, viljum við auka það enn frekar og hvernig og með hvaða hætti viljum við fara í lengingu kennaramenntunar? Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna að því og að við séum þegar byrjuð á þeirri vinnu og þetta frumvarp er liður í því.

Það hefur verið farið inn á ýmsa þætti í þessari umræðu og ég ætla að reyna að nýta þær tólf mínútur sem ég hef til þess að svara ýmsum spurningum sem hefur verið beint til mín. Laugarvatn var nefnt. Það er alveg klárt að það er ekki ætlunin að breyta neinu varðandi starfsemina á Laugarvatni enda tek ég undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að mikilvægur þáttur af starfsemi Kennaraháskólans fer fram á Laugarvatni og það er ekki ætlunin að breyta því og það er ekki liður í þeirri sameiningaráætlun sem liggur fyrir.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir beindi til mín þeirri spurningu hvort við mundum miða við þá sameiningaráætlun sem liggur fyrir hér sem fylgiskjal. Já, það er viðmiðunin sem við munum starfa eftir, þar eru stóru línurnar gefnar og ég vil sérstaklega geta þess að að mínu mati er þetta vel unnin sameiningaráætlun, hún er tímasett og markmiðin eru mjög skýr og hrein, það er verið að geta um þátttöku allra aðila o.s.frv. Ég hvet því alla til að lesa hana skilmerkilega.

Svo ég haldi áfram að svara spurningunum vil ég geta þess sem hér var rætt sérstaklega varðandi skólana, þ.e. hvort það ætti að skipta Háskóla Íslands upp í skóla. Það kemur skýrt fram í samningnum við Háskóla Íslands að þar er stefnt að því og það er ekkert leyndarmál að eitt af atriðunum sem tengjast samningnum og markmiðunum er að skipta Háskóla Íslands upp í skóla. Það er líka forsenda þess að Kennaraháskólinn geti sameinast 2008 að þá verði búið að skipta Háskóla Íslands upp í þá skóla sem um er rætt og það verði þá sérstakur skóli — hvaða nafn menn vilja gefa slíkum skóla, uppeldis- og menntunarskóli, þ.e. skóli sem mun sjá um uppeldis- og kennslufræðina í hinum nýja skóla. Það kemur skýrt fram að þetta er eitt af markmiðunum í samningnum. Að því er þegar verið að huga innan Háskóla Íslands og það tekur ákveðinn tíma en menn eru sérstaklega að vinna að þessu atriði.

Það hefur verið rætt svolítið um húsnæðismálin. Ég tel að þegar þessi sameining er komin í gegn muni menn að sjálfsögðu fara yfir það hvar best henti að staðsetja skólann, hvort best sé að hafa þetta allt á sama stað. Menn hafa rætt um þau áhrif sem það hafi að hafa skólastofnanirnar og reyndar líka rannsóknarstofnanir á sama svæðinu, að flestra mati eru það jákvæð áhrif. Menn hafa verið að tala um þekkingarklasa, þekkingarþorp, að Vatnsmýrin verði það. Við vitum það líka að til að mynda að Listaháskólinn hefur hug á því að fara inn á það svæði, ekki til þess að sameinast Háskóla Íslands eða Háskólanum í Reykjavík heldur til þess að nýta þau áhrif sem eru af nálægðinni til aukinnar samvinnu og eflingar viðkomandi skóla. Þetta er framtíðarmúsík sem verður þá ætluð forstöðumönnum hins sameinaða stóra háskóla.

Það er rétt sem kom fram í máli eins hv. þingmanns, Össurar Skarphéðinssonar, það hefur verið lögð áhersla á sjávarútveginn í gegnum árin, við þekkjum söguna þar. Sjávarútvegurinn hefur verið lykilatvinnugrein okkar í gegnum árin. Það hefur líka verið lögð áhersla á stóriðju sem margir þingmenn Samfylkingarinnar hafa líka stutt. Síðan hefur líka, og ég hef kallað það hina hljóðlátu byltingu í atvinnulífi landsmanna, það er byltingin í gegnum umbreytinguna á menntakerfinu sem hefur átt sér stað á umliðnum árum. Ég hef bent á það að efling fjármálalífsins, hvort sem við köllum hana útrás eða eitthvað annað, efling fjármálaþáttarins og fjármálaþátturinn í lífi og starfseminni í hlutdeildinni af þjóðarframleiðslunni er orðin jafnhá og sjávarútvegsins. Það hefði ekki getað gerst nema tvennt hefði komið til, annars vegar einkavæðing ríkisbankanna, það er alveg ljóst, og hins vegar að sú sókn í menntakerfinu sem við stöndum frammi nú fyrir var þegar hafin. Fjármálastarfsemin hefði ekki getað þanist svona út og orðið svona öflug nema hún hefði getað leitað í þá þekkingu sem háskólarnir höfðu fram að færa og að háskólarnir hefðu náð að mennta alla þá nemendur sem raun ber vitni. Þess vegna skiptir máli sú áhersla sem á sínum tíma var lögð á að við þyrftum að fjölga háskólunum. Okkur hefur tekist það. Háskólanemum hefur líka fjölgað hjá öðrum þjóðum en við Íslendingar höfum fjölgað háskólanemum meira en aðrar þjóðir innan OECD á jafnskömmum tíma. Það hefur styrkt atvinnulífið með þeim hætti að við sjáum nú fjölbreyttari grunnstoðir í atvinnulífinu þar sem við getum byggt á fleiri stoðum en eingöngu sjávarútveginum.

Varðandi framlög til vísinda, rannsókna og þróunar þá stöndum við Íslendingar vel að vígi, við erum löngu komin yfir 3% hlutfallið af þjóðarframleiðslunni sem er t.d. takmark sem ESB setti sér fyrir árið 2010. Að mig minnir eru síðustu tölur að 3,14% af þjóðarframleiðslunni fari til vísinda og rannsókna og það skilar sér, ég veit að við í þessum þingsal erum sammála um að það hefur skilað sér margfalt til þess að efla innviði samfélagsins.

Það hefur m.a. verið rætt um samninginn sem ég gerði nýverið við Háskóla Íslands og mér finnst gott að finna það að flestir þingmenn fagna þeim samningi og telja hann ekki vera neina meðalmennsku eins og mátti lesa frá einum hv. þingmanni Samfylkingarinnar í blöðunum í gær. Ég tel mikilvægt að menn átti sig á því að með því að efla Háskóla Íslands erum við að efla allt háskólasamfélagið og alla aðra háskóla um leið. Það er mikilvægt að hafa hér eina öfluga alhliða háskólavísindastofnun sem Háskóli Íslands er.

Svo eru menn að tala um að þetta sé einhver kosningatékki, (Gripið fram í: Að þetta sé hvað?) menn hafa verið að tala um að þessi samningur sé bara einhver kosningatékki. Mönnum sem samþykktu lögin síðasta vor um sjálfstæði háskóla á að vera kunnugt um það að í nýlegum gildandi lögum (Gripið fram í.) eru ákvæði og það er lagaskylda sem hvílir á menntamálaráðherra þegar samningur rennur út, eins og samningurinn við Háskóla Íslands gerði nú um áramótin, þá ber menntamálaráðherra að gera nýjan samning, þriggja til fimm ára samning við Háskóla Íslands. Og ég spyr hv. þm. Mörð Árnason: Á ég að brjóta lögin, á ég ekki að fara að lögum?

Ég stóð að sjálfsögðu frammi fyrir því að gera nýjan samning við Háskóla Íslands og ég gerði hann á þeim forsendum að það hefur farið fram umfangsmikil vinna, rannsóknarvinna sem hefur verið gerð að frumkvæði mínu sem hefur verið fólgin í því að við erum annars vegar að kanna gæði starfseminnar innan veggja Háskóla Íslands, þ.e. á sviði rannsókna, til að mynda gerði Rannsóknir og greining ágæta úttekt á Háskóla Íslands sem kom vel út úr þeirri greiningu og í þeirri skýrslu. Það sama hefur verið uppi á teningnum varðandi fjármálin. Ég taldi nauðsynlegt, til þess að geta farið í öfluga stefnumótun með Háskóla Íslands og til þess að geta gert samning eins og við gerðum sem hefur veruleg áhrif á stefnumótun Háskóla Íslands til framtíðar, að vinna heimavinnuna. Við gerðum það í samvinnu við ríkisendurskoðanda, í samvinnu við Rannsóknir og greiningu og í samvinnu við ýmsar úttektarstofnanir eins og stofnanir á vegum OECD, sem sögðu okkur nákvæmlega hvernig málum væri háttað varðandi framlög, varðandi gæði kennslu og rannsókna o.s.frv. Á því er síðan hægt að byggja á til þess að geta sett fram kröfur í þeim samningi sem við höfum síðan gert við Háskóla Íslands og mun tvímælalaust efla Háskóla Íslands en ekki síður allt vísinda- og rannsóknarsamfélagið.

Ég vil að lokum ítreka það, frú forseti, að meginmarkmiðið með þessari sameiningu er að efla kennaramenntunina og ég segi það aftur að ég tel þetta vera lið í því að styrkja og efla kennaramenntunina sem m.a. er þá liður í því og verður liður í því til lengri tíma að lengja kennaramenntunina. Ég tel mikilvægt að hv. menntamálanefnd og nefndarmenn þar fari mjög vel yfir þetta mál, þetta er stórmál og það er mikilvægt að það verði leitt til farsældar í nefndinni þannig að menn hafi þá tækifæri til þess að fara yfir ýmis atriði sem út af standa. Engu að síður ég tel mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi til þess að við getum haldið áfram með þessa skýrslu í farteskinu sem er fylgiskjal með frumvarpinu, að við förum eftir henni og þar er hlutur þingsins mikilvægur. Þar er ábyrgð þingmanna mikil, þ.e. að við komum þessu máli í gegnum þingið til þess að efla og styrkja kennaramenntunina í landinu þannig að við getum haldið áfram að efla og styrkja innviði skólakerfisins á öllum skólastigum.