133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:14]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með þeim atriðum sem komu fram í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ég sé ekki fyrir mér að við ræðum hér í nánustu framtíð um miklar sameiningar.

Ég vil miklu frekar segja að við erum að ná ákveðinni dínamík út úr því kerfi sem við erum að móta núna og ég er sannfærð um að liður í því er að sameina þá tvo háskóla sem þetta frumvarp fjallar um. Ég vona að ég hafi skilið hv. þingmann rétt, að hann telji ekki rétt að bíða með þetta mál. Ég tel málið það mikilvægt að við þurfum að koma því í gegn. Síðan verðum við að huga að því hvernig við viljum sjá samvinnu, og eftir atvikum sameiningu, til framtíðar, hvernig því á að vera háttað.

Ég tel mikilvægt að samvinnan verði aukin. Ég veit að það er t.d. aukin samvinna milli stóru háskólanna á suðvesturhorninu, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Ég veit að þeir eru að auka samvinnu sína á ákveðnum sviðum. Ég held að það sé mjög jákvætt að þrátt fyrir og í krafti samkeppninnar geti skólarnir engu að síður unnið saman. Hagsmunir okkar Íslendinga eru miklir í þá veru að við nýtum krafta og kosti okkar merku menntamanna og vísindamanna í hvaða háskóla sem þeir eru hér heima því að samkeppnin er ekki síst út á við, við alþjóðasamfélagið fyrir utan landið okkar.

Ég segi að um leið og allar menntastofnanir falla undir menntamálaráðuneytið er ákveðin hagkvæmni í því að geta farið heildstætt yfir málið. Hvar er hægt að auka samvinnu? Ég get í sjálfu sér skilið að á ákveðnu tímabili sé smæðin kostur. Síðan þegar menn halda áfram getur líka verið ákveðinn kostur fólginn í því að menn auki samvinnu og eftir atvikum sameinist.