133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:18]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Laugarvatn er ekki ætlunin með þessari sameiningu að flytja til starfsemina þar. Hins vegar eru ýmsar forsendur fyrir því og ákvarðanir sem kunna að verða teknar á grundvelli þeirrar skýrslu sem liggur fyrir ef það er til hagsbóta fyrir kennaramenntun á íþróttasviðinu.

Auðvitað er skólinn, og ég vil undirstrika það með hinn sameinaða skóla, sjálfstæður. Sjálfstæði háskólanna hefur verið eflt mjög, sérstaklega með nýsamþykktum lögum um háskóla sem við samþykktum á síðasta þingi. Það kann vel að vera að háskólaforustan meti það svo að það þurfi að verða einhverjar breytingar en ég sé ekki að við munum flytja í nánustu framtíð starfsemina frá Laugarvatni. Ég sé það ekki gerast, enda hefur hún staðið prýðilega fyrir sínu þar sem hún er núna.

Síðan er hitt, ég hef aldrei dulið það að ég tel að allar menntastofnanir eigi að heyra undir menntamálaráðuneytið. Þeir sem hafa fylgst með umræðunni vita að ekki eru allir sammála um það innan t.d. ríkisstjórnarinnar. Það er ekkert nýtt.

Ég hef líka sagt að það er ekki á borðinu að fara að flytja menntastofnanir hjá þessari ríkisstjórn. Ég uni því alveg. Það er samt skoðun mín að allar menntastofnanir eiga að heyra undir fagráðuneyti sem er menntamálaráðuneytið. Það er til þess einmitt að reyna að fá sem besta heildarsýn og yfirsýn yfir málaflokkinn. En um þetta eru ekki miklar deilur, ég get upplýst hv. þingmann um það. Þetta er ekki mikið rætt.