133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:20]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er eðlilegt að ekki séu miklar deilur ef málið er ekki mikið rætt. En það hryggir mig að hæstv. ráðherra skuli algerlega hafa gefist upp í þessu mikilvæga máli. Ég hefði haldið að þetta væri mál sem væri full þörf að taka á og ég geri ráð fyrir því að það muni þá miðað við þessar yfirlýsingar hæstv. ráðherra bíða næstu ríkisstjórnar. Það mun vonandi ekki standa á þeirri ágætu stjórn að kippa þessu í liðinn.

Aðeins áfram varðandi húsnæðismálin þannig að við séum ekki með neinn misskilning hér, það er alveg ljóst að frumvarpið sem slíkt gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum á Laugarvatni. Í aðgerðakaflanum í niðurstöðum hópsins segir þó þegar kemur að húsnæðismálum þar sem þetta er allt flokkað niður, með leyfi forseta:

„6.7.1 Kanna hvort nýta eigi húsnæði og lóðarréttindi á Rauðarárholti og Laugarvatni fyrir sameinaðan háskóla eða hvort flytja eigi þá starfsemi á lóð Háskóla Íslands.“

Þetta eru þeir tveir möguleikar sem gefnir eru upp þarna, annaðhvort að halda þessu á óbreyttum stöðum eða færa starfsemina, og það er þá ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en alla starfsemina, á lóð Háskóla Íslands. Síðan segir:

„6.7.2 Ef talin er þörf á að flytja starfsemi KHÍ á lóð HÍ, þarf að meta kostnað …“ o.s.frv. eins og eðlilegt er. Þar segir síðan:

„6.8.1 Starfshópur skipaður af háskólaráði sameinaðs háskóla vinnur að lausn húsnæðismála í nánu samstarfi við menntamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Starfshópurinn meti valkosti og leggi fram áætlun um kostnað við valkosti.“

Síðan segir, og það er afskaplega mikilvægt að það liggi fyrir:

„6.9.1 Úttekt á húsnæðismálum sameinaðs háskóla liggi fyrir í maí 2008.“

Það er mjög brýnt að þessi vinna fari af stað sem allra fyrst. Það er augljóst mál að það þarf að gerast um næstu áramót, ekki seinna, ef þetta á að verða tilbúið með úttekt í maí 2008 þannig að það sé hægt að fara að taka ákvarðanir og þetta sé inni í sameiningarferlinu.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir að auðvitað er fullt sjálfstæði háskólastofnana til að taka þessar ákvarðanir. Þó að ekki liggi fyrir samkvæmt frumvarpinu að það eigi að gera einhverjar breytingar á Laugarvatni er nauðsynlegt að þetta sé skoðað heildstætt (Forseti hringir.) eins og annað.