133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:22]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er mikilvægt að skoða málin heildstætt. Þegar ég segi að ekki sé ætlunin að flytja starfsemina af Laugarvatni er ég að segja að það er ekki stefnan, það er ekki markmið í sjálfu sér að flytja starfsemina frá Laugarvatni.

Að sjálfsögðu munu þeir sem eiga hlut að máli, háskólaforustan, taka þá afstöðu til þess hvernig fyrirkomulaginu verður best hagað og háttað til að efla kennaramenntunina, ekki síst á sviði íþrótta, hreyfingar og annars sem kemur inn í þann þátt kennslunnar og kennaramenntunarinnar sem sérstaklega er síðan kennd á Laugarvatni. Þar er sérhæfingin mest.

Það er ekki stefnan að flytja starfsemina. En menn munu að sjálfsögðu meta hvernig hægt er að haga málum þannig að við fáum sem mest út úr því að sameina háskólana tvo til að tryggja að öll kennaramenntun verði hágæðamenntun til lengri tíma litið.