133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra kaus að hefja pólitískar illdeilur í tengslum við umræður sem hafa staðið um þann samning sem hún gerði nýlega við Háskóla Íslands.

Samningurinn fól í sér að nokkrum milljörðum skuli varið til þess að efla háskólann. Það hef ég og fleiri í þessari umræðu tekið undir. Ég lýsti því hér yfir í dag að þetta væri þakkarvert og jákvætt. Ég færði ákveðin rök fyrir því af hverju einmitt hefði verið tímabært að vekja með þessum hætti aukinn stuðning við Háskóla Íslands.

Svo kom hæstv. menntamálaráðherra hér, skaut glósum að fjarstöddum þingmönnum og sagði síðan alveg hreint yfirkomin af hneykslun að svo væru einhverjir menn, og beindi orðum sínum til hv. þm. Marðar Árnasonar, að segja að hérna væri um einhvers konar kosningatrix að ræða. Herra minn trúr, frú forseti. Ef ég „på stående fod“, svo að ég sletti dönsku hér í ræðupúlti, man rétt áttu á fjárlögum nýhafins fjárlagaárs, sem hæstv. ráðherra hafði áhrif á, að koma 300 millj. til verksins. Afgangurinn sem er nokkrir milljarðar á hins vegar að koma, eftir því sem mér hefur skilist, á næstu árum.

Hæstv. ráðherra hefur ekki greint frá því að hún hyggist beita sér fyrir því að á fjáraukalögum komi sérstök fjárveiting til að standa straum af kostnaði við þetta. Er þá ekki fullkomlega eðlilegt að halda því fram að með þessum hætti sé hæstv. ráðherra að velta þessum víxli yfir á næstu ríkisstjórn? Nú mun ég að vísu fyrir hönd Samfylkingarinnar glaður gangast undir það ok að borga það vegna þess að ég held að þessum fjármunum sé vel varið. En ég segi þetta, frú forseti, vegna þess að það var hæstv. ráðherra sem vakti máls á því í þessari umræðu. Það er fyllilega hægt að halda því fram að þarna sé um að ræða vissa sýndarmennsku því að ef eitthvað annað hefði vakað fyrir hæstv. ráðherra hefði hún að sjálfsögðu séð til þess að a.m.k. fjórðungurinn af þessari upphæð hefði komið á því ári sem nú er að hefjast. Ég vona að það sé síðasta árið sem þessi ríkisstjórnarmeirihluti fer með menntamálin að öllu óbreyttu.

Þetta vil ég bara segja hér, frú forseti, vegna þess að mér fannst ósanngjarnt af hæstv. ráðherra að vekja máls á þessu. En því miður, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér í morgun, er það þannig að þegar líður að kosningum hefur það verið plagsiður þeirra flokka sem nú eru í ríkisstjórn að breyta ráðuneytum sínum í kosningaskrifstofur og henda víxlum af þessum toga út yfir land og þjóð og síðan sé ætlunin að aðrar ríkisstjórnir borgi þá.

Nú vil ég að vísu taka það fram, frú forseti, að ekki hafa allar aðrar fyrri ríkisstjórnir sem jafnvel jafnaðarmenn hafa átt einhvers konar aðild að verið með fullu fríar og frjálsar af þessu. Þá hefur heldur ekki skort á að m.a. hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi bent á það. Ég vil þess vegna segja alveg skýrt að ég styð þetta sem hæstv. ráðherra gerði, þennan samning við Háskóla Íslands. Ég tel það jákvætt og ég hefði viljað að meiri peningar færu í hann. Ég tel hins vegar fyllilega hægt að halda því fram að þarna hafi ekki verið staðið að málum af fullri einurð heldur ætlast til þess að komandi ríkisstjórnir beri hitann og þungann af þessu, eins og sést á því að ekki nema brot af þeim fjármunum sem eiga að fara í þetta mál kemur af núverandi fjárlögum.

Þó hafði hæstv. ráðherra tímann fyrir sér. Eins og hún sagði áðan datt þessi samningur ekki af himnum ofan. Hann varð ekki heldur bara til í gustukaskyni af hennar hálfu eða sökum mikils áhuga hennar einu sinni á málinu, sem ég dreg þó ekki í efa, heldur upplýsti ráðherrann um það sem við auðvitað vissum að hún varð að gera þennan samning. Samningurinn sem í gildi var rann út um síðustu áramót.

Nógan hafði hæstv. ráðherra fyrirvara til að geta undirbúið þetta. En eigum við þá ekki bara að sættast á það að hæstv. ráðherra hafði ekki pólitískt afl til að skófla út meiri peningum í þetta að þessu sinni úr ríkissjóði? Sá er mergurinn málsins. Það er það sem skiptir máli hérna.

Það tengist svo aftur öðru í því frumvarpi sem við erum að ræða hér, þ.e. sameiningu Kennaraháskóla og Háskóla Íslands. Þar er með góðum ásetningi farið af stað. En það liggur alveg ljóst fyrir að engir peningar fylgja með þessari sameiningu utan sú örsmáa upphæð sem beinlínis fer til þess að dekka kostnað við samningaviðræður og tilteknir tímar hvað þetta muni kosta. Það er ekki sett fjármagn til þess að efla kennaramenntunina sjálfa. Hvenær hefði verið tími til þess ef ekki á þessum tímamótum?

Frú forseti. Hvað er undirstaða velsældar í nútímasamfélagi okkar? Menntun. Hvað er það sem við getum gert til að auka þann afrakstur sem er af rannsóknum og menntun? Það eru tvær leiðir til. Önnur langtímaleið, hin skammtímaleið. Skammtímaleiðin felst í því að setja aukið fjármagn nákvæmlega núna í háskólakerfið og rannsóknakerfið allt saman og það skilar fljótt árangri. Það fé sem þannig er varið skilar fljótt arði.

Hin leiðin er sú að styrkja háskólanámið og langskólamenntun til langs tíma með því að byrja á undirstöðunni, þ.e. börnunum sem sitja á skólabekk í dag og á næstu árum og áratug. Það gerum við með því að byrja áður en þau setjast á skólabekkinn með því að bæta gæði menntunarinnar sem kennararnir sem eiga eftir að kenna þeim afla sér. Sú er langtímaleiðin.

Það má segja að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn séu með vissum hætti að taka á því líka í þessu frumvarpi. Ég verð eigi að síður að segja að þessi sameining nær ekki að skila þeim arði sem að henni mætti standa nema við ráðumst samhliða í það í sameiningu, þau sem fara með hin pólitísku völd í landinu, að bæta, breikka og lengja kennaranámið í landinu.

Ég segi þess vegna að ég hef allan fyrirvara á því að styðja þetta frumvarp, þó að ég hafi varla hnikað að því neikvæðum orðum, nema fyrir liggi alveg skýr yfirlýsing um að það eigi að lengja kennaranámið í landinu. Nú hefur að vísu rétt verið hægt að toga, nánast með glóandi töngum, í þessari umræðu upp úr ráðherranum í aukasetningu að hún stefni að því. Ég vil hafa það sem skýrt pólitískt markmið, það er a.m.k. skýrt pólitískt markmið mitt og minna pólitísku vandamanna, að lengja kennaranámið upp í fimm ár. Ég get svo sagt hæstv. ráðherra það í trúnaði yfir þennan ræðustól — get ekki sagt að það sé stefna míns flokks — að ég er þeirrar skoðunar að í framtíðinni eigi að stefna að því að allir kennarar á Íslandi, líka þeir sem kenna í grunnskóla, hafi fimm ára nám að baki og hafi meistarapróf.

Ég veit að það mun kosta mikið og það mun leiða til töluverðrar aukningar á kostnaði við kennaramenntun í landinu. Mér er bara alveg sama. Ég er þeirrar skoðunar að því fé sé vel varið og þetta er pólitískt markmið sem ætti að stefna að. Þetta gerðu Finnar og þeir hafa svo sannarlega uppskorið ríkulega. Jafnvel þótt ekki sé til fjármagn núna eða á næstu missirum, vegna þess að því er varið í annað í samfélaginu þótt gnótt sé þar auðs, á þetta samt sem áður að vera eitt af þeim háleitu markmiðum sem við setjum okkur varðandi menntun í landinu.

Mér finnst skorta heildarsýn yfir þetta. Ég tel að ef við ætlum að láta menntakerfið, háskólana, verkmenntaskólana okkar, verða að gróttakvörn sem malar endalaust gull í framtíðinni verðum við að leggja undirstöður með þessum hætti. Það tekur langan tíma og það þýðir að við þurfum að hafa þolinmótt fjármagn sem við festum í menntakerfinu vegna þess að af því sprettur ekki arður fyrr en eftir svolítinn tíma. En þegar hann byrjar að spretta munu upp af honum vaxa miklir meiðar og styrkir.

Þetta er meginmálið í því sem ég er að segja í ræðum mínum í dag. Þetta frumvarp eiga menn ekki að skoða eitt og sér, heldur sem part í miklu stærri mynd. Sú mynd á að fela í sér m.a. fráhvarf frá þeim skeiðum sem við ættum að vera að stíga frá núna í atvinnusögu okkar og inn í nýtt skeið hátækni og hugvits þar sem öllu skiptir að grunnurinn sé rétt lagður. Þá komum við að þessu máli sem er kennaramenntunin í landinu. Hún er líkast til sá kjörviður sem þarf að leggja í kjölinn á þessu skipi