133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:41]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert nýtt og ég hef lýst því yfir á margvíslegum stöðum og í ræðum að ég tel að lengja beri kennaranám í landinu. Þá verður hv. þingmaður að lesa meira ræður mínar og rit sem snerta einmitt kennaramenntunina. (Gripið fram í.) Við höfum sérstaklega verið að vinna að þessu og það hefur ekki farið leynt. Við höfum sérstaklega verið að vinna að því að lengja kennaranámið. Þess vegna hafa hópar verið skipaðir, þess vegna er þetta í áætlun í samkomulagi milli menntamálaráðuneytisins og Kennarasambandsins og þess vegna erum við að stuðla að því að reyna að taka þetta mál áfram. Þess vegna erum við að ræða þessi mál um sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands. Allt er þetta gert til að efla kennaramenntunina í landinu, þetta er liður í því.

Mér finnst hins vegar merkilegt það sem kom fram í andsvari hv. þingmanns áðan að hann viðurkenndi að hann — oft í andstöðu við samherja sína í Samfylkingunni, eins og hann sagði, og ég fagna því að hann skuli lýsa því yfir — hafi stundum verið sömu skoðunar og við, sem teljum það vera mikilvægt fyrir háskólana og fyrir samkeppnina í landinu að hafa fleiri háskóla en einn.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og finnst gott að hann hafi dregið þetta fram en um leið er dregin upp ákveðin andstaða samherja hans gagnvart einkaskólunum, sem er ekki ný af nálinni. Ég er margoft búin að segja það en hef verið sussuð niður af samherjum hans í Samfylkingunni. Ég er í rauninni eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sammála því sem hann er að segja, við eigum að efla og við höfum verið að efla sjálfstæða háskóla. Við höfum verið að gera það með því að efla samkeppnissjóðina og við ætlum að halda áfram. Liður í samningnum við Háskóla Íslands er að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að efla enn frekar samkeppnissjóðina, það er liður í því samkomulagi sem gert var við Háskóla Íslands en ekki síður hitt að ég tel mikilvægt, og þess vegna var þessi samningur gerður, að hafa hér einn öflugan alhliða háskóla (Forseti hringir.) sem Háskóli Íslands er.