133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[15:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú hefur komið fram að við hv. síðasti ræðumaður erum sammála um að fara beri mjög varlega í þessum efnum og almannavaldinu sé skylt að sjá til þess með einhverjum hætti að börn og ungmenni verði ekki fyrir því að vondir menn veljist til samfylgdar þeim í æskulýðsstarfi.

Hv. þingmaður hefur setið í nefnd sem gerði tillögur um að ákveðnir hópar væru útilokaðir frá æskulýðsstarfinu. Ég hef gagnrýnt þessa skipun og ég legg til að annaðhvort taki menn það sem augljóst er að beri að vera í þessum lögum sem eru svipuð ákvæði og í barnaverndarlögunum, eða að farin sé hin leiðin og það tiltekið hvers konar fólk eigi almennt ekki að vera í slíku starfi og forstöðumönnum ekki treyst fyrir því að meta það sjálfir.

Ég spyr hv. þingmann hvort það sé virkilega svo að hún vilji að þetta gildi eingöngu um fíkniefnabrotamenn þar sem fimm ár eru liðin frá afbrotinu en henni finnist í lagi að morðingjar, ræningjar, heimilisofbeldismenn og fjárglæframenn og drykkjumenn séu í slíkum störfum. Bara já eða nei við þessu.