133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[15:36]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að vísan í 4. mgr. 10. gr. snýr að 3. mgr. en ég held að bæði ég og hv. þingmaður verðum að treysta því að forstöðumenn slíkrar starfsemi meti umsækjendur með tilliti til forsögu þeirra.

Það er alveg ljóst að það var mat nefndarinnar sem samdi frumvarpið að börnum væri sérstök hætta búin varðandi þá aðila sem orðið hafa uppvísir að kynferðisbrotum gagnvart börnum. Það hefur reyndar verið víkkað út í meðhöndlun nefndarinnar eða ráðuneytisins að það eigi við um alla og jafnframt varðandi ávana- og fíkniefni.

Það hefur t.d. verið talið sannað að þeir sem brotið hafa gegn börnum einhvern tímann á lífsleiðinni varðandi kynferðisafbrot, hætti ekki þeirri iðju sinni eins og ljóst er. Síðan var hugmyndin sú að börnin yrðu látin njóta vafans varðandi ávana- og fíkniefni og vísa ég þá m.a. í þá sögu sem ég las hér áðan.

Hvað varðar morðingja, ræningja og aðra slíka afbrotamenn, þá var ekki farið út í slík brot. Við höfðum kannski ekki hugmyndaflug til að láta okkur detta í hug að slíkir aðilar færu sérstaklega að sækjast eftir starfi í æskulýðsstarfi. Nú er það í höndum menntamálanefndar og hv. þm. Marðar Árnasonar að sækja það innan nefndarinnar, vilji hann bæta þessu ákvæði við. Ég er tilbúin til að hlusta á rök hans í þeim efnum við 2. umr.