133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[15:38]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til æskulýðslaga. Ég ætla að byrja á að taka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi þá sem óæskilegir eru til starfa fyrir æskulýðssamtök. Það er reynsla af því að fjárglæframenn hafi starfað fyrir íþrótta- og æskulýðssamtök og sjálfsagt er ástæða til að reyna að koma í veg fyrir að þeir geri það alveg eins og með þá sem hlotið hafa fíkniefnadóma, að það sé a.m.k. athugað áður en leiðbeinendur eru ráðnir að þeir séu ekki á vanskilaskrá o.s.frv.

Eins og allir vita er starfsemi æskulýðsfélaga hér á landi mjög öflug og í sjálfu sér tímabært að endurskoða lög um slíka starfsemi en þau eru frá 1970. Þessi endurskoðun byggist á skýrslu sem skilað var í maí 2003 undir heitinu Úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi. Ég tel að unnið hafi verið mjög gott starf í nefndinni sem vann þá úttekt og góð skýrslan sem frá henni kom.

Ungmennafélögin sinntu á sínum tíma stórum hluta slíks starfs og gera að sjálfsögðu enn, en frá því að Æskulýðsráð Reykjavíkur var stofnað 1956 má segja að félagsmiðstöðvar hafi tekið yfir stóran hluta af félagsstarfinu a.m.k. í þéttbýli.

Hvað varðar æskulýðsstarfið vil ég minna á að það er æskilegt að gleyma engum í þeirri umræðu og taka tillit til minni hópa. Þar má nefna Ný-Ung, ungliðahreyfingu Sjálfsbjargar o.s.frv., alla þá sem búa við skert líkamlegt eða andlegt atgervi, en félagasamtök þeirra segja: „Ekkert um okkur án okkar“ og óska eftir að það sé virt.

Eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið hafa rannsóknir sýnt fram á að þátttaka ungs fólks í æskulýðsstarfi hefur mikið forvarna- og uppeldislegt gildi. Það minnkar líkur á vanlíðan ungs fólks og minnkar líka líkur á vímuefnaneyslu og andfélagslegri hegðun.

Eitt af því sem ég velti fyrir mér varðandi frumvarpið sjálft er í 5. gr. Eins og kom fram í athugasemdum við frumvarpið í fyrra veltu samtökin Samfés því fyrir sér hvort þau ættu ekki að fá beinan aðgang að Æskulýðsráði, en í 5. gr. nú segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar níu fulltrúa í Æskulýðsráð. Fimm fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu æskulýðssamtaka, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Tveir fulltrúar skulu tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra skipar formann og varaformann …“

Ég velti því fyrir mér af hverju ekki var farið að ósk Samfés á sínum tíma um að þeir fengju fulltrúa beint í Æskulýðsráð og fæ ég væntanlega svar við því. Ég hefði talið rétt að þessi samtök, sem nú eru orðin 21 árs og sinna gífurlega miklu æskulýðsstarfi í landinu, hefðu beinan aðgang að Æskulýðsráði og ættu þar sinn eigin fulltrúa.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ríkissjóður leggi starfsemi landssamtaka æskulýðsfélaga til fé eftir ákvörðun Alþingis í fjárlögum. Fjármálaráðuneytið telur að tillagan feli ekki í sér skuldbindingar um fjárveitingar og hafi því ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.“

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort það sé rétt að þessi lög, verði frumvarpið samþykkt, muni ekki hækka útgjöld ríkissjóðs á neinn hátt. Þegar maður les greinarnar yfir hefði ég haldið að bæði 3. gr. og 6. gr. og jafnvel 7. gr. leiddu af sér aukin útgjöld, þ.e. að þessar greinar krefðust aukins fjárstuðnings til æskulýðsfélaga frá ríkisvaldinu. Samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytisins er talið að svo verði ekki. Ég spyr: Er gert ráð fyrir auknum fjárstuðningi við æskulýðsfélög með þessu frumvarpi?

Eitt af því sem aukist hefur á síðustu árum eru auknar kröfur til þeirra sem sinna æskulýðsstarfi, auknar kröfur um menntun, auknar kröfur til leiðbeinenda og þjálfara. Sem betur fer er meiri menntun í boði, en þessu fylgir að sjálfsögðu aukinn kostnaður. Mörg æskulýðsfélög eru rekin af sjálfboðaliðum og því tel ég nauðsynlegt að árleg fjárframlög til æskulýðssamtaka séu tekin sérstaklega til endurskoðunar og þá með hækkanir í huga.

Oft er vitnað í tölur um styrki, annars vegar frá ríki og hins vegar frá sveitarfélögum, en þær geta verið villandi. Í athugasemdum við frumvarpið varðandi þá skýrslu sem hér hefur verið minnst á kemur fram að framlög sveitarfélaga til æskulýðs- og íþróttamála voru um 6 milljarðar árið 2001. Það skal tekið fram að í þessum tölum er um að ræða heildarkostnað, bæði til byggingar mannvirkja, reksturs þeirra og innra starfs hjá sveitarfélögunum. Ekki er rétt að taka tölurnar þannig að þetta sé einungis beinn fjárstuðningur til reksturs æskulýðssamtakanna.

Í umræddri skýrslu segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Félags- og tómstundasamtök afla fjármagns með ýmsum hætti. Stuðningur frá sveitarfélögum og ríki er mikilvægur þáttur í fjármögnun flestra félags- og tómstundasamtaka þótt slíkur stuðningur sé yfirleitt aðeins hluti af fjármögnun starfseminnar. Ársreikningar félags- og tómstundasamtaka hérlendis sýna að hlutur ríkis og sveitarfélaga í fjármögnun samtakanna er þó afar misjafn, allt frá því að vera enginn upp í nokkra tugi prósentna af árlegu rekstrarfé viðkomandi samtaka.“

Þetta eru atriði sem mér finnst þurfa að ræða sérstaklega um og ég hef þær væntingar til þessara nýju laga að þau verði til þess að sveitarfélögin endurskoði allan sinn stuðning, hvort heldur það verður í gegnum æskulýðs-, íþrótta- eða tómstundanefndir, í formi húsnæðis, afnota af húsnæði eða jafnvel beinna styrkja. Því það er einfaldlega þannig að æskulýðs- og íþróttafélög eru nokkurs konar þjónustustofnanir fyrir sveitarfélögin og ríkisvaldið. Æskulýðsfélögin veita íbúum sveitarfélaga þjónustu um allt land með því að halda utan um frístundatíma ungs fólks. Þessi félög eru með ýmiss konar starfsemi sem er líkleg til að gera unglingana að betri þjóðfélagsþegnum.

Minnst hefur verið á 10. gr. varðandi starfsskilyrði í æskulýðsstarfi. Það kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra að eina breytingin á frumvarpinu frá því í fyrra komi fram í þessari grein þar sem er tekið fram hverjum er óheimilt að starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi. Ég tel að þessi breyting sé til bóta en set jafnframt fyrirvara varðandi þá sem hafa brotið gegn lögum um ávana- og fíkniefni, um að það sé einungis á síðastliðnum fimm árum. Það er spurning hvort sá tími eigi ekki að vera lengri. Það er sitt hvað hvort sá sem brotið hefur þessi lög komi á samkomur með börnum og unglingum til að segja frá reynslu sinni í einhverju fyrirlestraformi eða hvort hann sinnir þeim svo klukkutímum skiptir. Ég ítreka að rétt er að víkka jafnvel út þessa grein og tiltaka fleiri aðila. Það er t.d. reynsla íþrótta- og æskulýðssamtaka að menn sem ekki kunna að fara með fé hafi lagt jafnvel rekstur heilla félaga í rúst.

Að öðru leyti fagna ég því að frumvarpið skuli komið fram og eigi eftir að njóta málsmeðferðar í þinginu. Ég ítreka enn og aftur vangaveltur mínar, annars vegar um það hvort því muni fylgja, eins og mér finnst 3., 6. og 7. gr. gefa í skyn, aukið fjármagn til æskulýðssamtaka og æskulýðsmála og hins vegar hvort ekki sé rétt að stór landssamtök eins og Samfés eigi ekki að fá sinn eigin fulltrúa skipaðan beint í Æskulýðsráð.