133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[16:05]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski erum við hv. þm. Mörður Árnason ekkert svo ósammála. Ég held að við höfum bæði notað það orðfæri að við eigum að láta börnin njóta vafans.

Varðandi það að einhverjir hafi brosað að sögum um að fólk sem hefur brotið af sér með ávana- og fíkniefnum sé að voma í kringum börn í æskulýðsstarfi þá er þetta náttúruega ekkert til að brosa það. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég held að hv. þingmaður hafi eins og ég lesið greinar í blöðum og frásagnir í blöðum um eiturlyfjasala sem voma í kringum grunnskóla og reyna að halda ávana- og fíkniefnum að börnum, í kringum félagsheimili og slíkt. Ég held að engin ástæða sé til að brosa eða hæðast að þessum sögum. Þetta er raunveruleiki sem börn og fjölskyldur hafa staðið frammi fyrir.

Sagan sem ég las áðan er ein af mörgum sem ég hef heyrt. Hún kom með tölvupósti til mín. Aðrar sögur heyrði ég í starfi nefndarinnar þegar ég leiddi það starf að semja þetta frumvarp. Þar komu aðilar sem hafa mikla reynslu í þessum málum og þeir fullyrtu þetta í okkar eyru. Þetta voru bæði aðilar innan frjálsra félagasamtaka og einnig aðilar sem leiða þetta starf meðal sveitarfélaga. Mér er ekki hlátur í huga og ég geri heldur ekki ráð fyrir því að hv. þm. Merði Árnasyni sé hlátur í huga.