133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:09]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um námsgögn. Forsaga þessa frumvarps er sú að í júní 2005 skipaði ég starfshóp sem var falið það hlutverk að endurskoða lögin frá 1990 um Námsgagnastofnun með hliðsjón af 33. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskólann okkar.

Starfshópinn skipuðu ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins, ráðgjafinn minn fyrrverandi, forstjóri Námsgagnastofnunar og fulltrúar frá Skólastjórafélagi Íslands ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa frá Kennarasambandi Íslands.

Starfshópurinn fékk m.a. á sinn fund fulltrúa foreldrasamtaka og bókaútgefenda auk þess að gangast fyrir sérstakri könnun á stöðu námsefnisgerðar hér á landi og viðhorfum kennara, skólastjórnenda og bókaútgefenda. Frumvarp þetta, frú forseti, er því afrakstur þeirrar vinnu starfshópsins.

Með frumvarpi þessu er mælt fyrir um breytingar á því með hvaða hætti ríkisvaldið leggur grunnskólunum í landinu til námsgögn og styður við þróun og gerð námsefnis á leik-, grunn- og framhaldsskólastigum. Meginmarkmið breytinganna eru mikilvæg að mínu mati. Þau eru að tryggja aukna fjölbreytni og framboð námsgagna, auka sjálfstæði og val skóla og um leið kennara um námsgögnin, draga úr miðstýringu í þróun og framleiðslu námsgagna, auka sveigjanleika og tækifæri einstakra skóla og kennara við útfærslu á aðalnámskránni, stuðla að þróun og nýsköpun í námsgagnagerð, skapa forsendur fyrir góðri nýtingu fjármuna sem veittir er úr ríkissjóði í því skyni að tryggja skólunum í landinu viðeigandi námsgögn, tryggja áfram stöðugt framboð vandaðs námsefnis fyrir grunnskóla útgefið af Námsgagnastofnun og að síðustu, frú forseti, stuðla að bættu skólastarfi og koma betur til móts við þarfir nemenda.

Samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að til verði svokallað þriggja stoða fyrirkomulag, sem ég tel vert að þingmenn hafi í huga, sem sett er saman af Námsgagnastofnun í fyrsta lagi, í öðru lagi af nýjum námsgagnasjóði og síðan í þriðja lagi nýjum þróunarsjóði námsgagna. Þetta eru sem sagt þessar þrjár stoðir sem munu bera uppi námsgagnagerð í landinu ef frumvarpið verður samþykkt.

Ég legg áherslu á, eins og fram kemur í II. kafla frumvarpsins, að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að starfsemi Námsgagnastofnunar haldist því sem næst óbreytt. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögfest verði í 4. mgr. 3. gr. sú regla að réttur hvers skóla til að fá afhent námsgögn sem Námsgagnastofnun framleiðir ráðist af nemendafjölda en stofnuninni verði heimilt að ívilna smærri skólum.

Í raun hefur reglu þessari verið fylgt í framkvæmd en eðlilegt þykir að hún fái lagastoð. Þá eru sérstaklega hafðir í huga fámennir skólar, ekki síst úti á landsbyggðinni, þar sem reglunni hefur verið beitt.

Þá bendi ég á að í 5. mgr. 3. gr. er að finna nýmæli þess efnis að stofnanir skuli hafa fjárhagslegan aðskilnað vegna sölu á námsgögnum í frjálsri samkeppni við aðra aðila á almennum markaði frá því lögbundna hlutverki stofnunarinnar að leggja grunnskólum til námsgögn skv. 1.–4. mgr. greinarinnar. Lagt er til að við verðlagningu skuli höfð hliðsjón af hinum fjárhagslega aðskilnaði.

Með þessu er í frumvarpinu brugðist við úrskurði Samkeppniseftirlitsins í ákvörðun nr. 40/2006 þar sem fjallað var um samkeppnishætti Námsgagnastofnunar við útgáfu og sölu kennsluefnis fyrir grunnskólanema. Samkvæmt úrskurðinum er stofnuninni gert skylt að skilja að fjárhag sinn, annars vegar á milli þeirrar starfsemi sem felst í því að selja útgefið efni stofnunarinnar á almennum markaði í samkeppni við einkaaðila og hins vegar þeirrar starfsemi sem tengist því lögbundna hlutverki stofnunarinnar að sjá grunnskólum landsins fyrir náms- og kennslugögnum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því í 4. gr. að ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanns verði eflt. Jafnframt er gert ráð fyrir breytingum á stjórn stofnunarinnar hvað varðar hlutverk og skipan einstaklinga. Þannig er lagt til að menntamálaráðherra skipi fimm menn í stjórnina til fjögurra ára í senn í stað sjö manna stjórnar samkvæmt núgildandi lögum. Varðandi stjórnina bendi ég á að lagt er til að tveir stjórnarmenn skuli tilnefndir af Kennarasambandi Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af landssamtökum foreldra grunnskólabarna samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra. Lagt er til að menntamálaráðherra skipi einn stjórnarmann án tilnefningar og skuli hann vera formaður en varaformaður skuli skipaður úr hópi tilnefndra aðalmanna. Gert er ráð fyrir að hlutverk stjórnar verði að marka stofnuninni stefnu í samráði við forstöðumann og staðfesta árlega að starfs- og fjárhagsáætlanir séu í samræmi við markaða stefnu, jafnframt því að veita forstöðumanni ráðgjöf og fylgjast með starfsemi stofnunarinnar.

Í öðru lagi, frú forseti, er í III. kafla frumvarpsins gert ráð fyrir að settur verði á stofn sérstakur námsgagnasjóður. Ég vek athygli á þessu ákvæði og þessum kafla. Verður hlutverk sjóðsins að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa í því augnamiði að tryggja val þeirra um námsgögn. Lagt er til í 6. gr. að sjóðurinn hljóti fjárveitingu af fjárlögum ár hvert og að menntamálaráðherra skipi sjóðnum þriggja manna stjórn.

Varðandi stjórnina bendi ég á að gert er ráð fyrir að einn stjórnarmaður skuli tilnefndur af Kennarasambandi Íslands, einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og síðan á menntamálaráðherra að skipa einn stjórnarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður. Lagt er til að varaformaður skuli skipaður úr hópi tilnefndra aðalmanna.

Gert er ráð fyrir að sjóðurinn skiptist á milli starfandi grunnskóla í landinu í samræmi við nemendafjölda og stærð skólanna en heimilt verði að ívilna fámennum skólum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að skólarnir hafi sjálfdæmi um hvernig þessum fjármunum verði varið að uppfylltum reglum sem menntamálaráðherra setur um skilyrði fyrir ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum. Þetta kemur til með að auka val skólastjóra og kennara við skólann verulega. Það er þeirra að ákveða, að teknu tilliti til þeirra reglna sem sjóðurinn mun setja og menntamálaráðherra staðfesta, hvernig þeir verja þeim fjármunum til námsgagnakaupa. Lagt er til að sjóðstjórn hafi eftirlit með að farið sé að úthlutunarreglum.

Ég legg áherslu á að með þessu fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að skólarnir hafi færi á að kaupa námsgögn sem aðrir en Námsgagnastofnun hafa á boðstólum en jafnframt er ekki loku fyrir það skotið að þeir nýti hlutdeild sína í námsgagnasjóðnum til aukinna kaupa frá Námsgagnastofnun. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðuneytið annist umsýslu sjóðsins og beri ábyrgð á honum.

Ég vek sérstaklega athygli á því, frú forseti, að í fjárlögum fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir 100 millj. kr. úthlutun til námsgagnasjóðs og er það í samræmi við áherslur ráðuneytisins um aukin framlög til menntamála.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að almennt er litið svo á að fjárveitingar til Námsgagnastofnunar hafi nýst vel og að vel hafi tekist að sinna þörfum grunnskólanna með tilliti til þeirra fjármuna sem stofnunin hefur haft til ráðstöfunar.

Því tel ég ekki skynsamlegt að draga úr efnum stofnunarinnar til að sjá grunnskólum landsins fyrir námsgögnum en með því að leggja fé í námsgagnasjóð til ráðstöfunar samkvæmt óskum og ákvörðun einstakra skóla til viðbótar því fé sem veitt er til Námsgagnastofnunar er styrkari stoðum skotið undir þennan mikilvæga þátt skólastarfsins, að veita skólunum svigrúm, aukið val til þess að velja þau námsgögn sem þeir kjósa að nýta í skólastarfinu.

Ég vek líka sérstaklega athygli á því að þetta kemur m.a. fram í könnun sem er líka getið um í greinargerðinni með frumvarpinu, það er alveg skýrt í þeirri könnun sem var gerð að kennarar eru að óska eftir aukinni fjölbreytni og auknu vali varðandi námsgögn.

Í þriðja lagi felst í IV. kafla frumvarpsins að settur verður á stofn sérstakur þróunarsjóður námsgagna sem ætlað er að styðja við nýsköpun og þróun, gerð og útgáfu námsefnis á leik-, grunn- og framhaldsskólastigum. Í 7. gr. er gert ráð fyrir að sjóðurinn hljóti fjárveitingu á fjárlögum ár hvert og að menntamálaráðherra skipi sjóðnum fimm manna stjórn

Frumvarpið gerir ráð fyrir að menntamálaráðherra skipi þróunarsjóði námsgagna fimm manna stjórn þannig að tveir stjórnarmenn skuli tilnefndir af Kennarasambandi Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar úr hópi skólameistara framhaldsskóla. Lagt er til að menntamálaráðherra skipi einn stjórnarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður. Lagt er til að varaformaður skuli skipaður úr hópi tilnefndra aðalmanna.

Þá er gert ráð fyrir í 3. mgr. 7. gr. að stjórn þróunarsjóðsins ákveði skiptingu á fjárveitingum sjóðsins og beri ábyrgð á umsýslu hans.

Ég bendi einnig á, frú forseti, að sjóðnum er heimilt að fá aðstoð sérfræðinga við mat á umsóknum. Gert er ráð fyrir því í 4. mgr. sömu greinar að menntamálaráðherra setji þróunarsjóði námsgagna reglugerð. Þá vil ég vekja athygli á að gert er ráð fyrir eftirfylgni við ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum. Þannig er gert ráð fyrir því að þeir sem fá fé úr þróunarsjóði námsgagna skuli gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjárins samkvæmt fyrirmælum í úthlutunarreglum.

Ég bendi einnig á að verði misbrestur á eða séu önnur skilyrði fyrir styrkveitingu ekki uppfyllt er stjórninni heimilt að stöðva greiðslur eða eftir atvikum fara fram á endurgreiðslu styrksins.

Ég vek einnig athygli á að í fjárlögum fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að fjármunir sem runnið hafa til þróunar námsgagna á framhaldsskólastigi haldist óbreyttir en verði þetta frumvarp að lögum mun aukið framlag renna til þróunarsjóðs námsgagna á fjárlögum ársins 2008 í samræmi þá við ákvæði frumvarpsins. Er áætlað að gera ráð fyrir þessu strax við undirbúning fjárlagagerðar fyrir 2008 sem nú þegar er hafinn.

Ég tel að með þessu séum við búin að koma ákveðnu skipulagi á fót þar sem verður auðveldara að skipuleggja framlög til námsgagnagerðar. Ég tel einmitt brýnt að efla líka þennan þróunarsjóð námsgagna sem er þróunarsjóður þvert á skólastigin, fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Ég legg áherslu á að með því að setja á stofn þennan þróunarsjóð námsgagna fyrir fyrstu þrjú skólastigin er leitast við að tryggja betri yfirsýn og nýtingu fjármuna sem varið er til þróunar og nýsköpunar í gerð námsgagna.

Varðandi einstakar greinar frumvarpsins umfram það sem ég hef nú þegar sagt bendi ég á að samkvæmt 8. gr. þess er gert ráð fyrir því að ef vafi leikur á að námsgögn uppfylli réttmætar gæðakröfur eða samrýmist markmiðum aðalnámskrár sé heimilt að óska eftir því að menntamálaráðuneytið meti hvort viðkomandi námsgögn séu hæf til notkunar í kennslu.

Að lokum vil ég benda á ákvæði til bráðabirgða í frumvarpi þessu sem snertir sérstaklega starfsmenn Námsgagnastofnunar. Þar kemur fram að verði frumvarp þetta að lögum felur það ekki í sér neinar breytingar á stöðu og réttindum starfsmanna Námsgagnastofnunar sem ráðnir hafa verið á grundvelli laga um Námsgagnastofnun.

Frú forseti. Ég hef nú rakið efni frumvarpsins í megindráttum og sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um einstakar greinar þess, heldur vísa ég til frumvarpsins sjálfs og eftir atvikum til ítarlegrar umfjöllunar í athugasemdum eða greinargerðinni þar sem m.a. má finna yfirlit um námsgagnaútgáfu á Íslandi allt frá árinu 1931.

Meginforsenda og -markmið þessa frumvarps eru, fyrir utan að koma til móts við kröfur kennara um fjölbreytni í námsgögnum og aukið val og svigrúm skólanna, að efla enn frekar námsgagnagerðina í landinu, auka aðgengi fleiri aðila en Námsgagnastofnunar að námsgagnaútgáfu. Fyrst og fremst er þetta til að styrkja enn betur námsgagnagerðina fyrir börnin okkar. Við segjum í rauninni: Við erum að auka framlögin til námsgagnagerðar á Íslandi um 100 millj. samkvæmt fjárlögum sem nú þegar eru samþykkt og leikurinn er til þess gerður að efla enn betur námsgögnin til barnanna okkar. Í rauninni segjum við við börnin okkar: Við ætlum að búa til enn betri námsgögn.